5N0A6373
„Þetta var einn af mínum bestu leikjum í sumar, en mér finnst ég eiga betri leiki þegar ég spila á kanti," sagði Barbára Sól Gísladóttir, leikmaður Selfoss, við Fótbolta.net en hún er leikmaður 16. umferðar í Pepsi Max-deild kvenna.
Barbára átti frábæran leik í 1-0 sigri Selfyssinga á Fylki á sunnudaginn. Barbára lagði upp sigurmarkið með góðri sendingu og var öflug í bakverðinum.
Alfreð Jóhannsson, þjálfari Selfyssinga, sagði eftir leik að Barbára hefði verið með Ídu Marín Hermannsdóttur í rassvasanum í leiknum.
„Mér fannst ég alveg ná að loka vel á hana og leyfði henni ekki að skapa mörg færi, en í heildina fengu þær ekki mikið af færum og varnarlínan okkar kom í veg fyrir það."
Selfoss varð bikarmeistari á dögunum og styrkti stöðu sína í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar með sigrinum gegn Fylki. Er gengi liðsins í sumar framar væntingum?
„Við ætluðum okkur alltaf að vinna Bikarinn og að vera í topp 5 í Pepsi Max, þannig já það mætti segja að við höfum náð markmiðum okkar og betur en það," sagði Barbára en hún segir að það hafi gengið vel að ná einbeitingu á nýjan leik eftir bikarsigurinn í síðasta mánuði.
„Fannst við vera frekar fljótar að ná okkur niður eftir sigurinn og einbeita okkur að næsta leik, en auðvitað er maður alltaf í smá sigurvímu eftir svona stóran sigur."
Selfoss á eftir að mæta KR og ÍBV í síðustu tveimur umferðunum í sumar. „Markmiðið er klárlega að ná í þessi 6 stig sem erum eftir og að enda í 3. sæti í deildinni," sagði Barbára en hún er sjálf með háleit markmið fyrir framtíðina.
„Markmið mín í framtíðinni eru að fara út í atvinnumennsku og að spila fyrir A landsliðið," sagði Barbára að lokum.