Hergeir, Ómar Ingi, Elvar Örn, Teitur, Sverrir, Daníel Árni og Sævar Ingi
Það eru hvorki fleiri né færri en 21 einstaklingar á Selfossi sem hafa verið boðaðir á landsliðsæfingar yngri landsliða Íslands í október. Þetta er glæsilegur árangur hjá krökkunum og viðurkenning fyrir þá gífurlegu vinnu og samviskusemi sem þau hafa lagt á sig frá unga aldri. Þetta er jafnframt staðfesting á frábæru starfi sem fram fer innan Ungmennafélagsins Selfoss og þeirri miklu og góðu samvinnu sem félagið á við önnur félög á svæði HSK. Það er ánægjulegt að geta boðið krökkum á Selfossi og alls staðar af Suðurlandi upp á fjölbreytt og metnaðarfullt íþrótta- og afreksstarf.
Sex Selfyssingar voru valdir á úrtaksæfingar hjá U17 og U19 kvenna í knattspyrnu. Úlfar Hinriksson, landsliðsþjálfari U17 kvenna, valdi Kareni Maríu Magnúsdóttur í sinn hóp og Ólafur Þór Guðbjörnsson, landsliðsþjálfari U19 kvenna, valdi Bergrúnu Lindu Björgvinsdóttur, Ernu Guðjónsdóttur, Evu Lind Elíasdóttur, Hrafnhildi Hauksdóttur og Katrínu Rúnarsdóttur í sinn hóp.
Aron Óli Lúðvíksson og Teitur Einarsson voru valdir af Kristjáni Arasyni í U16 ára landsliðið í handknattleik. Einnig voru fjórir leikmenn Selfoss valdir í U18 ára hóp Einars Guðmundssonar. Leikmennirnir sem um ræðir eru Elvar Örn Jónsson, Hergeir Grímsson, Ómar Ingi Magnússon og Sævar Ingi Eiðsson. Bæði liðin æfa að Varmá helgina 1.-3. nóvember. Þá voru Daníel Árni Róbertsson og Sverrir Pálsson valdir í U20 ára hóp Gunnars Magnússonar sem æfir í Kaplakrika um í vikunni og um helgina.
Karen María Magnúsdóttir var valin í æfingahóp fyrir U16 ára landslið kvenna í handknattleik sem æfir undir stjórn Halldórs Stefáns Haraldssonar og Jóns Gunnlaugs Viggóssonar. Fimm leikmenn Selfoss voru í æfingahóp Hilmars Guðlaugssonar og Ingu Fríðu Tryggvadóttur þjálfara U18 ára landsliðsins. Þetta eru þær Dagmar Öder Einarsdóttir, Elena Birgisdóttir, Hulda Dís Þrastardóttir, Katrín Ósk Magnúsdóttir og Þuríður Guðjónsdóttir. Þá var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir valin í U20 ára landsliðið sem leikur undir Guðmundar Karlssonar og Halldórs Kristjánssonar.