Júdó - Egill í Ungverjalandi
Egill Blöndal undirbýr sig nú undir Evrópumeistaramót Juniora U21 eða keppendur yngri en 21 árs sem fer fram á Malaga á Spáni helgina 16.-17. september.
Egill hefur undanfarið tekið þátt í tveimur Evrópubikarmótum fyrst í Paks í Ungverjalandi 9.-10. júlí og síðar í Gdynia í Póllandi 16.-17. júlí.
Í Paks fékk Egill sterkan franskan mótherja í fyrstu glímu Loris Tassier og náði mjög góðri stöðu í byrjun en Tassier náði að sigra þessa glímu og komast í úrslit.
Breytinga var þörf fyrir mótið í Gdynia í Póllandi og þar gekk betur og sigraði Egill tvær fyrstu viðureignir sínar af nokkru öryggi. Þriðja viðureignin var við Litháan Rokas Menartavicius sem er í 15. sæti á heimslistanum. Egill átti góða viðureign en tapaði á stigum eftir góða baráttu.
Fjórða viðureign var við Úkraníumanninn Babenko og hefði hún unnist var Egill komin í keppni um bronsið. Í viðureigninni var Egill sterkari aðilinn og því gegn gangi glímunnar að hún tapaðist en kann að skýrast af því að Egill var kominn með sýkingu í hægri öxl. Þessi meiðsli hafa orðið til þess að Egill hefur orðið að taka hlé á æfinum um stund en við vonum að hann verði fljótur að hrista þau af sér.
gs
---
Egill staldraði við í Búdapest í Ungverjalandi.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Garðar Skaftason