HSK - Íþróttafólk ársins 2019
Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir og handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson, bæði úr Ungmennafélagi Selfoss, voru í dag útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Héraðssambandsins Skarphéðins árið 2019.
Héraðsþing HSK fer fram í Hvolnum á Hvolsvelli í dag, en því var frestað í marsmánuði vegna COVID-19.
Fjóla Signý var fulltrúi Íslands á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi þar sem hún keppti í þremur greinum. Hún kom heim af mótinu með tvö gull, annars vegar fyrir 400 m grindahlaup og hins vegar var hún í sigursveit Íslands í 4×400 m hlaupi. Fjóla Signý varð einnig Íslandsmeistari í sjöþraut utanhúss árið 2019. Fjóla varð einnig HSK meistari í fjölmörgum greinum, bæði innan- og utanhúss.
Haukur var lykilmaður í liði Selfoss, sem landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli vorið 2019. Hann var jafnframt valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar. Haukur lék vel með Selfyssingum fyrri hluta keppnistímabilsins 2019-2020 og var um áramótin markahæsti leikmaður deildarinnar. Hann lék með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu Íslands til þess að leika á stórmóti í handbolta.
---
Þröstur Ingvarsson, faðir Hauks, og Fjóla Signý með verðlaunin á héraðsþinginu í dag.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl