Cornelia Hermansson býr sig undir að verja vítakast, hún endaði leikinn með 48% markvörslu. Katla María Magnúsdóttir fylgist með álengdar en hún var markahæst með 8 mörk.
Mynd: ÁÞG
Selfoss stelpur eru komnar í 8-liða úrslit í bikarkeppni HSÍ eftir frábæran sigur á FH í Kaplakrika í kvöld.
Jafnt var með liðunum í byrjun leiks en eftir 23 mínútur var staðan 9-8 fyrir okkar stelpum. Þá kom mjög góður kafli þar sem Selfyssingar lokuðu markinu og skoruðu fjögur síðustu mörk hálfleiksins. Staðan í hálfleik var því 13-8.
Seinni hálfleikur byrjaði frábærlega hjá okkar stelpum og eftir 5 mínútur í seinni hálfleik var staðan orðin 18-9. Eftir þetta var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Náði Eyþór þjálfari að rúlla vel á liðinu og spiluðu allir leikmenn góðar mínútur. Leikurinn endaði með 30-17 sigri og því ljóst að stelpurnar eru komnar í 8-liða úrslit bikarkeppninnar en þau verða leikin um miðjan febrúar.
Næsta verkefni hjá stelpunum er svo á laugardaginn þegar að Stjarnan kemur í heimsókn í Sethöllina. Hefst leikurinn klukkan 16:00 og eru allir hvattir til að mæta og styðja stelpurnar í baráttunni í Olísdeildinni.
Mörk Selfoss: Katla María Magnúsdóttir 8, Roberta Stropé 5, Rakel Guðjónsdóttir 3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2, Tinna Sigurrós Traustadóttir 2, Inga Sól Björnsdóttir 2, Kristín Una Hólmarsdóttir 1 og Adela Eyrún Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 10 (48%), Áslaug Ýr Bragadóttir 1 (25%) og Dröfn Sveinsdóttir 2 (40%).