harpa_perla
Ævintýri meistaraflokks kvenna er lokið þetta tímabil, eftir tap í tveimur leikjum á móti Gróttu í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Stelpurnar geta gengið stoltar frá leikjunum gegn gríðarlega öflugu liði deildar- og bikarmeistaranna.
Fyrri leikur liðanna fór fram á Seltjarnarnesi og var um hörku leik að ræða. Leikurinn var jafn í upphafi en um miðjan fyrri hálfleik náði Grótta forystu 6-4. Þær náðu þó aldrei að hrista Selfoss af sér, höfðu 2 til 4 marka forskot fram að leikhléi en staðan var 14-10 í hálfleik. Meistararnir af Nesinu náðu góðum kafla í upphafi seinni hálfleiks og héldu þær forystunni út leikinn sem endaði 28-22. Eftir fyrri leikinn var því staðan 1-0 fyrir Gróttu í átta liða úrslitum Íslandsmótsins.
Seinni leikur liðanna fór fram á Selfossi og var jafnræði með liðunum í upphafi svipað og í fyrri leiknum. Selfoss átti slakan kafla í lok fyrri hálfleiks og byrjun þess seinni en á þessu tímabili breyttist staðan úr því að vera 7-8 í það að vera 8-18 fyrir Gróttu. Okkar stelpur vöknuðu þó aftur til lífsins og náðu að saxa á forskotið en leikurinn endaði 21-29 fyrir Gróttu sem sigraði þessar viðureignir því 2-0 og Selfoss komið í sumarfrí.
Selfoss lagði mikla vinnu og undirbúning í þessa leiki og gríðarlega góða stemming var í hópnum. Okkar stelpur voru tilbúnar að leggja allt í sölurnar og berjast til síðasta blóðdropa. Þá má eiginlega segja að þær hafi gert það en tveir mikilvægir leikmenn voru bornir af velli í þessum viðureignum. Í fyrri leiknum meiddist Kristrún Steinþórsdóttir illa og eftir læknisskoðun kom í ljós að hún er með slitna hásin. Í þeim síðari var Harpa Sólveig Brynjarsdóttir borin af velli og nú hefur komið í ljós að hún er með slitið krossband. Eðlilega bregður öðrum liðsmönnum þegar svona gerist og riðlar leik liðsins en Selfoss hefur verið mjög óheppið með meiðsli í vetur. En þó svo sjúkralistinn sé orðinn langur hjá liðinu, þá koma alltaf aðrir leikmenn sem stíga upp og sanna sig sem framtíðarleikmenn liðsins. Nú tekur við sumarfrí og undirbúningur fyrir næsta tímabil. Framtíð handboltans á Selfossi er svo sannarlega björt og verður spennandi að fylgjast með liðinu næstu tímabil.
Hrafnhildur Hanna var markahæst í liði Selfoss í báðum leikjunum með samtals 22 mörk. Níu mörk í fyrri leiknum og þrettán í seinni leiknum.
Mynd: Harpa Sólveig og Perla Ruth /Jóhannes Ásgeir Eiríksson. Fleiri myndir frá leik liðanna á Selfossi má finna á Facebook síðu handknattleiksdeildarinnar.
Viðtal við Sebastian Alexanderson eftir fyrri leik liðanna má finna hér og eftir seinni leik liðanna má finna hér. Þá er einnig frétt um uppalda leikmenn Selfoss á vefnum FimmEinn.is.