Olísdeildin
Selfoss tók á móti Gróttu í níundu umferð Olísdeildarinnar á laugardag. Fyrir leikinn höfðu stelpurnar okkar ekki tapað á heimavelli í vetur. Það átti eftir að breytast því að Grótta var betri aðilinn allan leikinn og frá upphafi var ljóst hvert stefndi.
Grunnurinn var lagður í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 11-17. Í síðari hálfleik innsigluðu Gróttustelpur sanngjarnan tólf marka sigur 21-33.
Markahæstar Selfyssinga voru Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Kristrún Steinþórsdóttir með fimm mörk, Margrét Katrín Jónsdóttir og Carmen Palamariu skoruðu þrjú, Þuríður Guðjónsdóttir tvö, Hildur Öder Einarsdóttir, Thelma Sif Kristjánsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir eitt mark hver. Áslaug Ýr varði átta skot í markinu (32%) og Katrín Ósk sjö (32%).
Stelpurnar eru nú í áttunda sæti deildarinnar með 7 stig. Næsti leikur Selfyssinga er á útivelli gegn ÍR laugardaginn 22. nóvember kl. 16:00 og er það jafnframt síðasti leikur stelpnanna fyrir langt jólafrí í Olísdeildinni.