Góður sigur gegn Fram

Ragnar Jóhannson 2021
Ragnar Jóhannson 2021

Selfoss sigraði Fram örugglega í Hleðsluhöllinni í dag með fjórum mörkum, 32-28.

Selfyssingar skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins en Fram skoraði næstu þrjú mörk. Jafnræði var með liðunum næstu mínúturnar og var staðan 5-5 eftir 10 mínútur. Selfoss tók forystuna á nýjan leik og komust skjótt aftur þremur mörkum yfir, 8-5. Strákarnir juku forystuna hægt og rólega í fyrri hálfleik og leiddu þeir með sex mörkum í hálfleik, 20-14. Selfoss hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og fljótt var munurinn orðinn 10 mörk, 26-16, mestur varð munurinn 12 mörk, í stöðunni 29-17.  Síðustu tíu mínútur leiks gafst færi á að leyfa ungum og efnilegum strákum að spreyta sig og gefa lykilmönnum hvíld fyrir loka törnina.  Á þeim kafla náðu Framarar að minnka muninn hægt og rólega niður án þess þó að ógna sigri Selfyssinga, lokatölur 32-28.

Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfsson 8, Ragnar Jóhannsson 7, Hergeir Grímsson 5/1, Einar Sverrisson 4, Nökkvi Dan Elliðason 3, Tryggvi Þórisson 2, Gunnar Flosi Grétarsson 1, Ísak Gústafsson 1, Arnór Logi Hákonarson 1, 

Varin skot: Vilius Rasimas 10 (34%) og Alexander Hrafnkelsson 2 (18%)

Næst á dagskrá eru tveir leikir við nýkrýnda deildarmeistara Hauka.  Fyrst á fimmtudagskvöldið þegar liðin mætast á Ásvöllum í bikarkeppninni og svo á mánudagskvöldið þegar liðin mætast í Hleðsluhöllinni í Olísdeildinni.


Mynd: Ragnar Jóhannson var öflugur á báðum endum vallarins í dag, hann skoraði sjö mörk og átti fimm sköpuð færi.
Umf. Selfoss / SÁ