Grace Rapp í frönsku úrvalsdeildina

Screenshot 2019-09-05 at 09.13.50
Screenshot 2019-09-05 at 09.13.50

Grace Rapp, leikmaður nýkrýndra bikarmeistara Selfoss í knattspyrnu, hefur samið við franska úrvalsdeildarliðið Stade de Reims og mun því ekki leika fleiri leiki með Selfyssingum í sumar. Grace er bandarískur sóknarmaður en hún kom til Selfyssinga um mitt sumar í fyrra.

Hún hefur verið í lykilhlutverki hjá Selfyssingum síðan þá en hún hefur spilað alla fimmtán leiki liðsins í Pepsi Max-deildinni og skorað fjögur mörk. Þá skoraði hún þrjú mörk í fjórum leikjum í leið Selfyssinga í átt að Mjólkurbikarnum.

Stade de Reims er nýliði í frönsku úrvalsdeildinni en liðið hefur leikið í neðri deildum undanfarin ár. Félagið var sigursælt á árum áður og varð meðal annars franskur meistari fimm sinnum á árunum 1975-1982.

Einni umferð er lokið í frönsku úrvalsdeildinni en Grace fær verðugt verkefni í sínum fyrsta leik fyrir félagið sem mætir Evrópumeisturum Lyon um næstu helgi.

Selfoss er í 3. sæti í Pepsi Max-deild kvenna en þrjár umferðir eru eftir af deildinni.

 

 

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð