Basti_sport.is
Meistaraflokkur karla gerði jafntefli á móti hörku góðu liði Hamranna á Akureyri, 24-24. Selfyssingar byrjuðu leikinn illa og lentu undir en tókst smá saman að vinna sig inn í leikinn og jafna í stöðunni 8-8. Staðan var 14-12 fyrir Hamrana í hálfleik. Sóknarleikur Hamranna gekk ekki eins vel í seinni hálfleik en Selfoss saxaði á forystuna og jafnt var á flestum tölum á lokakafla leiksins. Selfyssingar jöfnuðu 19-19 á 47. mínútu og komust tveimur mörkum yfir þegar sex mínútur voru til leiksloka. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum var Selfoss 22-24 yfir en þá skoruðu Hamrarnir tvö mörk í röð og jöfnuðu í stöðunni 24-24 þegar innan við mínúta var eftir. Selfyssingar voru klaufar að nýta ekki síðustu sóknina en þeir misstu boltann. Þá tóku Hamrarnir leikhlé, stilltu upp í sókn en Sebastian varði síðasta skot leiksins þannig að annað stigið kom á Selfoss. Svekkjandi að ná ekki að klára þetta í lokin, komnir tveimur mörkum yfir en í handbolta er staðan fljót að breytast og ekkert öruggt fyrr en flautað er af.
Eftir þennan leik er Selfoss í þriðja sæti deildarinnar með 15 stig. Næsti leikur liðsins er á fimmtudaginn, 15. janúar á móti ÍH. Hvetjum alla að mæta á pallana í Vallaskóla og hvetja sitt lið áfram í baráttunni á toppi deildarinnar.
Sverrir Pálsson var markahæstur í liði Selfoss með átta mörk en hann var að koma til baka eftir aðgerð sem hann fór í fyrr í vetur. Aðrir markaskorarar voru Andri Már og Guðjón Ágústsson með fimm hvor, Hörður Másson og Matthías Örn Halldórsson skoruðu þrjú hvor.
Mynd: Sebastian í leik á móti Hömrunum í fyrravetur