Selfoss merki
Vel heppnað lokahóf handknattleiksdeildarinnar fór fram í Hvíta húsinu, laugardaginn 4. maí. Grímur Hergeirsson handboltakempa, stýrði samkomunni af stakri snilld en boðið var upp á heimatilbúin og aðkeypt skemmtiatriði, haldið var uppboð og dregið var í happdrætti en í boði voru margir mjög veglegir vinningar. Hörður G. Bjarnason stefnir á að leggja skóna á hilluna en félagar hans í liðinu voru búnir að ramma inn keppnisbúninginn hans sem þeir afhentu honum á slúttinu. Vonandi hættir Höddi við að hætta og mæti sprækur í haust!
Eftir hefðbundna dagskrá tók hljómsveitin Papar við sem hélt uppi fjörinu langt fram á nótt.
Það sem hæst ber á svona samkomu er afhending verðlauna til leikmanna. Veitt voru verðlaun til leikmanna meistaraflokks karla og kvenna auk 2.flokks karla.
Í öðrum flokki karla var Sverrir Pálsson markahæstur, Jóhann Erlingsson valinn efnilegastur og Árni Geir Hilmarsson var valinn leikmaður ársins.
Hjá stelpunum í meistaraflokki kvenna var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir markahæst auk þess að vera valin sóknarmaður ársins. Kristrún Steinþórsdóttir var valin besti varnarmaðurinn, Þuríður Guðjónsdóttir valin efnilegust, Ásdís Björg Ingvarsdóttir fékk baráttubikarinn og Tinna Soffía Traustadóttir var valin leikmaður ársins.
Hjá strákunum í meistaraflokki var Ómar Vignir Helgason valinn varnarmaður ársins og baráttubikarinn fékk Hörður Gunnar Bjarnarson. Einar Sverrisson var markahæsti leikmaður tímabilsins en þess má geta að hann var annar markahæsti leikmaður 1. deildarinnar í vetur. Einar var einnig valinn leikmaður ársins, besti sóknarmaðurinn og efnilegasti leikmaðurinn.
Árlega er valinn félagi ársins, en það er sá einstaklingur sem hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir félagið. Það eru margir sem koma til greina enda mikið sjálfboðastarf unnið innan félagsins. Í ár var það Sigurþór Þórsson sem fékk þá viðurkenningu.