Rakel Nathalie Kristinsdóttir NM 2013
Fjórir núverandi og fyrrverandi nemendur Fimleikaakademíu Umf. Selfoss og FSu kepptu um helgina á Norðurlandamóti fullorðinna í hópfimleikum sem fram fór í Danmörku. Ísland sendi tvö kvennalið og eitt karlalið á mótið. Norðurlandamót er félagsliðakeppni og náði Selfoss ekki þátttökurétti á síðasta Íslandsmóti. Fjórir keppendur uppaldir í fimleikadeild Selfoss kepptu þó á mótinu hvert með sínu liði.
Skemmst er frá því að segja að Rakel Nathalie Kristinsdóttir keppti með kvennaliði Gerplu en þær vörðu Norðurlandameistaratitilinn eins og flestum er orðið kunnugt. Helga Hjartardóttir, sem býr í Danmörku, keppti með blönduðu liði Ollerup en hún stundaði nám við skólann 2011. Helga varð einnig Norðurlandameistari með Ollerup en liðið hreppti þennan sama titil fyrir tveimur árum og þá var Rakel Nathalie Kristinsdóttir einnig í liðinu. Þetta er því annað skiptið í röð sem stöllurnar hampa Norðurlandameistaratitli.
Eva Grímsdóttir keppti með liði Stjörnunnar en þær náðu sér ekki á strik á dýnunni og gáfu frá sér möguleikann á verðlaunasæti. Þær enduðu í 6. sæti af tíu liðum. Eva átti gott mót þrátt fyrir að hafa verið veik frá því hún kom til Danmerkur í síðustu viku. Þetta var í fyrsta skipti sem Eva keppir á Norðurlandamóti en hún hefur keppt tvisvar sinnum á Evrópumóti og í bæði skiptin endað á palli þar. Síðast þegar Eva átti að keppa á Norðurlandamóti komst flugvélin ekki á mótsstað sökum eldgoss.
Aron Bragason keppti með karlaliði Gerplu. Þar voru einungis sjö lið mætt til keppni en Finnar og Ísland eru að berjast við að byggja upp karlalið og hefur Finnunum ekki tekist það ennþá. Mikil meiðsli hrjáðu karlalið Gerplu og keyrðu þeir mun léttari stökk en keppinautarnir frá Danmörku og Svíþjóð. Þeir áttu samt góðar keyrslur og höfnuðu í 7. sæti. Þeir eru reynslunni ríkari og mæta af krafti á næsta NM. Aron var líka að keppa á sínu fyrsta Norðurlandamóti en hann keppti með landsliðinu á EM 2012.
Gaman er frá því að segja að allir þessir fjórir keppendur stunda eða hafa stundað nám við fimleikaakademíu Umf. Selfoss og FSu.
Selfyssingar áttu líka dómara á mótinu en Olga Bjarnadóttir er alþjóðlegur dómari og dæmdi allt mótið fyrir hönd Íslands sem átti fjóra dómara á mótinu.
Úrslit í heild sinni má finna með því að smella hér.