sigur
Eftir tvo leiki á móti Fjölni í umspili um laust sæti í úrvalsdeild er staðan 1-1. Bæði lið hafa unnið einn leik og verður því um hreinan úrslitaleik að ræða í þriðja leik liðanna um það hvort liðið heldur áfram.
Selfyssingar töpuðu fyrsta leik liðanna 28-25. Selfyssingar byrjuðu þann leik betur en Fjölnir náði fljótlega forskoti og leiddi í hálfleik 16-13. Seinni hálfleikinn voru Selfyssingar alltaf að elta og náðu aldrei almennilega í skottið á Fjölni. Selfoss hafði tækifæri til að minnka muninn í tvö mörk og komast inn í leikinn en því miður þá nýttu okkar menn færin sín ekki nógu vel og markvörður Fjölnis sá við þeim. Tap staðreynd og staðan 1-0 fyrir Fjölni í umspilinu.
Markahæstur í leiknum var Hergeir Grímsson með sjö mörk en hann var að spila gríðarlega vel fyrir liðið. Sverrir skoraði 6 mörk, Teitur Örn, sem var að spila sinn fyrsta leik með meistaraflokki, skoraði 4 mörk. Guðjón skoraði 3 mörk, Árni Guðmunds og Andri Már 2 mörk hvor og Alexander 1 mark.
Annar leikur liðanna fór svo fram á Selfossi og ekkert annað en sigur kom til greina hjá okkar mönnum. Strákarnir mættu mjög einbeittir til leiks og allt annað að sjá til liðsins frá fyrri leiknum. Ef frá er talin staðan 2-2 í upphafi þá höfðu heimamenn forystu allan tímann og ætluðu ekki að láta hana frá sér. Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 7-4 fyrir Selfoss og mestur var munurinn fimm mörk í fyrri hálfleik, í stöðunni 10-5. Staðan í leikhléi var 12-8 fyrir Selfoss. Sama baráttan hélt áfram í seinni hálfleik en Fjölnir ógnaði Selfoss þó aðeins meira og náði að minnka muninn í eitt mark þegar korter var eftir af leiknum og allt gat gerst en eins og allir vita þá eru hlutirnir fljótir að breytast í handbolta. Heimamenn voru þó ekki á því að hleypa gestunum nær og náðu aftur forskoti sem þeir héldu til loka leiks sem endaði 24-20.
Sannfærandi sigur Selfoss en nú er það oddaleikur liðanna sem fram fer miðvikudaginn 15. apríl klukkan 19:30 í Grafarvoginum. Nú treysta strákarnir á að Selfyssingar fjölmenni á pallana, hjálpi þeim í baráttunni og að þeir verði jafn vel studdir af áhorfendum og þeir voru á heimavelli. Það var frábært að sjá hve margir stuðningsmenn beggja liða voru á leiknum. Frábær stemming í húsinu og þétt setið á pöllunum.
Markahæstur í liði Selfoss var Hörður Másson með 8 mörk, Teitur Örn og Árni Geir skoruðu 3 mörk hvor, Hergeir, Árni Guðmunds, Sverrir og Matthías skorður allir 2 mörk og Ómar Vignir og Alexander skorðu eitt mark hvor. Sebastian varði 15 skot með 50% markvörslu og Helgi varði 3 skot með 38% markvörslu.
Umfjöllun um heimaleik Selfoss má sjá á Sunnlenska.is og á Fimmeinn.is ásamt myndbroti úr leiknum.
Einnig má sjá viðtöl sem tekin voru eftir leik við Gunnar Gunnarsson og Sebastian Alexanderson.
Mynd: Selfyssingar fögnuðu vel eftir sigur í heimaleik sínum. Fleiri myndir frá Jóhannesi Á. Eiríkssyni má sjá hér en hann hefur verið frábær með myndavélina á leikjum Selfoss undanfarið.