IMG_6591
Valsmenn unnu Ragnarsmótið eftir sigur á móti Stjörnunni 33-29 en staðan var 16-12 fyrir Val í hálfleik. Grótta varð í þriðja sæti eftir sigur á HK, 32-31 eftir að hafa verið 16-19 undir í hálfleik. Selfoss tapaði á móti Aftureldingu 27-31 í leik um fimmta sætið.
Markaskorarar Selfoss í dag voru Sverrir Pálsson með níu mörk, Egidijus með sex mörk, Jóhann Erlings með þrjú, Andri Már, Gunnar Ingi og Árni Geir með tvö, Hergeir Grímsson, Hörður Másson og Daníel Arnar allir með eitt mark.
Í lok móts voru veitt verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið en það var Brynja systir Ragnars sem sá um það ásamt dætrum sínum. Einnig voru veitt einstaklingsverðlaun en þar var Guðmundur Hólmgeirsson úr Val valinn leikmaður mótsins og besti varnarmaðurinn. Besti sóknarmaðurinn var Starri Friðriksson Stjörnunni og Besti markmaðurinn var Hlynur Morthens úr Val. Selfyssingurinn Sverrir Pálsson var markahæstur með 21 mark.
Handknattleiksdeildin þakkar þeim fjölmörgu sem komu við í íþróttahúsinu og fylgdust með æfingamótinu sem tókst vel. Sérstakar þakkir til VÍS fyrir þeirra stuðning en eins og áður hefur komið fram þá hefur mótið verið haldið með þeirra stuðningi frá upphafi.