Selfoss meistarar á Ragnarsmóti kvenna

Á laugardaginn lauk Ragnarsmóti kvenna og þar með mótinu í heild þetta árið. Að venju léku fjögur lið í einum riðli þar sem öll liðin mættust einu sinni. Að síðasta leik loknum voru svo nýir meistarar krýndir og einstaklingsviðurkenningar veittar.

Í fyrri leik laugardagsins var áhugavert uppgjör liðanna tveggja í mótinu sem komu úr Grill 66 deildinni, FH og Víkingur. Leikurinn var skemmtilegur frá byrjun og var afar jafn í fyrri hálfleik þó Víkingar hafi allan tímann verið á undan að skora. Hálleikstölur 15-16 Víkingum í vil. Í hélt þetta áfarm með sama hætti, leikurinn í ágætu jafnvægi, aldrei mikill munur en FH að elta. Að lokum höfðu Víkingar sigurinn, 30-28.

Lokaleikurinn var ekki síður áhugaverður, en þar mættust Olísdeildarliðin Selfoss og ÍBV, en Selfoss er sem kunnugt er nýliðar í Olísdeildinni í vetur. Þetta er leikur sem stóð fyllilega undir væntingum, jafnt var á flestum tölum en Eyjastúlkur með frumkvæðið frá upphafi og þær náðu að búa sér til 2 marka forystu í hálfleik 11-13. Stelpurnar frá Selfossi mættu sprækar úr hálfleik og voru fljótlega búnar að jafna aftur og enn var leikurinn í járnum. Þegar10 mínútur voru eftir af leiknum komust Selfyssingar svo yfir í fyrsta sinn í leiknum. Þá forystu létu þær ekki af hendi og lönduðu að lokum sigri í þessum spennuleik, 27-24.

Markahæsti leikmaður mótsins og jafnframt valin sú besta var Perla Ruth Albertsdóttir. Hún lék á alls oddi á þessu móti og var markahæst Selfyssinga í öllum þeirra leikjum, endaði með 28 mark á mótinu ásamt því að vera öflug varnarlega eins og henni er von og vísa. Marta Wawrzynkowska var frábær í marki Eyjakvenna í þeim tveim leikjum sem hún tók þátt í. Hún átti stóran þátt í því að slökkva á liði Víkinga í fyrsta leik ÍBV og var stórgóð í óeiginlega úrslitaleiknum á laugardaginn. Sunna Jónsdóttir var valin varnarmaður mótsins, en hún stóð í hjarta varnarinnar fyrir framan áðurnefnda Mörtu í ÍBV. Sunna hefur séð þetta allt saman áður og það hjálpar til við að taka réttu ákvarðanirnar í vörninni. Þá var Harpa Valey Gylfadóttir valinn besti sóknarmaður mótsins, hún stýrir sóknarleik Selfyssinga mjög vel. Útsjónasöm á valkosti og um leið og henni er réttur litli putti er hún búin að spóla sig fram hjá vörninni og koma boltanum í netið sjálf.

Eins og áður segir er Ragnarsmótinu þar með lokið þetta árið og þökkum við liðunum og starfsfólki þeirra fyrir samveruna, þökkum öllum þeim dómurum sem tóku þátt í þessu með okkur, þökkum auðvitað öllu starfsfólki, iðkendunum og sjálfboðaliðunum sem komu að framkvæmd leikjanna og mótsins í heild og síðast en alls ekki síst þökkum við þeim fjölmörgu áhorfendum sem mættu á pallana og tóku þátt hvert á sinn hátt. Hér að neðan eru úrslit og myndir af þeim sem hlutu viðurkenningar:

1. Sæti Selfoss
2. Sæti ÍBV
3. Sæti FH
4. Sæti Víkingur

 

Besti markmaður
Marta Wawrzynkowska - ÍBV
 
Besti varnarmaður
Sunna Jónsdóttir - ÍBV
 
Besti sóknarmaður
Harpa Valey Gylfadóttir - Selfoss
 
Markahæst og leikmaður mótsins
Perla Ruth Albertsdóttir 28 mörk - Selfoss
ásamt Maron Blæ með sigurlaun Selfossliðsins
 
Ragnarsmótsmeistarar Kvenna 2024
Selfoss