Keppni í 1.deild í 4. flokki kvenna yngra árs er ný hafin. Mótið hófst með heimaleik á móti Fram. Töluverður sviðskrekkur var í báðum liðum og mikið um einfalda tæknifeila á báða bóga. Varnir beggja liða voru mjög sterkar og eins og sjá mátti á hálfleikstölunum en staðan í hálfleik var 7-7. Selfoss stelpurnar hristu af sér sviðskrekkinn í seinni hálfleik og bættu sóknarleik sinn til mikilla muna. Þar var Aldís gríðalega sterk á á línunni og Jana gerði 4 góð mörk úr horninu. Vörnin var áfram sterk með þær Ísabellu og Þóru í broddi fylkingar. Einnig er vert að geta góðrar frammistöðu Sessu í markinu sem varði jafn og þétt allan leikinn. Stelpurnar náðu fljótt góðu forskoti í síðari hálfleik sem þær héldu út leikinn sem endaði 17-12 fyrir heimastelpur. Markahæstar voru Aldís með 6 mörk og Jana með 4. Sesselja varði 15 skot í markinu.
Á laugardaginn fóru steplurnar síðan í Mosfellsbæinn þar sem þær sóttu Aftureldingu heim. Byrjum leiksins lofaði ekki góðu þar sem staðan var 6-2 fyrir Aftureldingu eftir 13 mínútna leik. 5-1 vörnin sem hefur verið aðall liðsins undafarið var alls ekki að ganga upp samhliða mörgum mistökum í sókninni sem gerði það að verkum að liðið var í verulegum vandræðum í upphafi leiks. Eftir að liðið bakkaði aftur í 6-0 vörn fóru stelpurnar að ná tökum á kvikum skyttum Aftureldingar þar sem Ísabella og Karen náðu vel saman í miðju varnarinnar. Síðustu 12 mínútur hálfleiksins fóru 6-1 fyrir Selfoss og gengu þær með eins marks forystu til búningsherbergjanna. Í síðari hálfleik var engin spurning um hvort liði færi með sigur af hólmi. Selfoss stelpurnar náðu fljótlega 5 marka forskoti sem þær héldu að mestu út leikinn sem endaði 18-14 okkar stelpum í hag. Það var skarð fyrir skildi að Þóra gat ekki verið með í leiknum sökum meiðsla, en í hennar fjarveru stigu aðrar stelpur upp. Sigurbjörg Agla, Theódóra, Guðbjörg og Birta skiluðu mikilvægu framlagi í leiknum. Aldís naut sín í nýju hlutverki í hægri skyttunni og Karen gerði flott mörk utan af velli. Ísabella og Jana skiluðu einnig mikilvægum mörkum. Síðast en ekki síst þá átti Sessa mjög góðan leik í markinu og má segja að hún hafi haldið liðinu á floti í upphafi leiks þegar hvorki gekk eða rak.Markahæstar voru Aldís með 5 mörk og Karen og Ísabella með 4. Sessa varði 17 skot í markinu. Vert er að geta dómgæslunnar í leiknum sem var til mikillar fyrirmyndar og Aftureldingu til mikils sóma.