Dagný Selfoss
Stelpurnar okkar hjá Umf. Selfoss eru heldur betur að slá í gegn hjá Sunnlendingum. Nú í upphafi árs 2014 stóð Sportþátturinn á Suðurland FM fyrir vali á íþróttakonu og íþróttakarli ársins 2013 á Suðurlandi á meðal hlustenda. Gátu hlustendur sent inn skilaboð á Facebook með athugasemdum aða sent tölvupóst á stjórnanda þáttarins gest Einarsson frá Hæli.
Hvorki fleiri né færri en fjórir Selfyssingar eru á topp 5 listanum hjá konunum. Knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir sem gekk til liðs við Selfoss yfir hátíðarnar var valin Íþróttakona ársins 2013 á Suðurlandi. Dagný tryggði íslenska landsliðinu sæti í fjórðungsúrslitum Evrópumótsins í sumar þegar hún skoraði sigurmarkið gegn Hollandi.
Fast á hæla hennar kom liðsfélagi hennar og fyrirliði Selfoss í Pepsi deildinni Guðmunda Brynja Óladóttir en hún var jafnframt valin efnilegasti leikmaður deildarinnar að loknu síðasta keppnistímabili.
Handknattleikskonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var í fjórða sæti en hún er lykilmaður í liði Selfoss í úrvalsdeildinni síðastliðið keppnistímabil. Hún var jafnframt valin efnilegasti leikmaður deildarinnar.
Fimmta er svo frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir sem stóð í ströngu á árinu bæði með Selfoss og landsliðinu. Hæst bar þó árangur hennar á Smáþjóðaleikunum þar sem hún krækti í þrenn verðlaun.
Hjá körlunum urðu Selfyssingarnir Þórir Ólafsson landsliðsmaður í handknattleik og frjálsíþróttamaðurinn og þjálfarinn Ólafur Guðmundsson í fjórða og fimmta sæti.
Greint var frá þessu á vef DFS.is.
Eftirtaldir urðu í efstu sætum í kjörinu.
Íþróttakona ársins 2013 á Suðurlandi:
1. Dagný Brynjarsdóttir, knattspyrnukona
2. Guðmunda Brynja Óladóttir, knattspyrnukona
3. Marín Laufey Davíðsdóttir, körfubolta- og glímukona
4. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, handknattleiks- og fimleikakona
5. Fjóla Signý Hannesdóttir frjálsar
Íþróttamaður ársins 2013 á Suðurlandi:
1. Björgvin Karl Guðmundsson, crossfitmaður
2. Ragnar Nathanaelsson, körfuknattleiksmaður
3. Eiður Aron Sigurbjörnsson, knattspyrnumaður
4. Þórir Ólafsson, handknattleiksmaður
5. Ólafur Guðmundsson, frjálsíþróttamaður
---
Dagný Brynjarsdóttir íþróttakona Suðurlands 2013.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl