Tæpar 400 þúsund krónur söfnuðust í styrktarleik

mynd
mynd

Í gærkvöld fór fram leikur Selfoss og KA/Þórs í Coca Cola bikarkeppni HSÍ.  Ákveðið var að leikurinn yrði styrktarleikur og rann allur aðgangseyrir af leiknum óskiptur til styrktar Gígju Ingvarsdóttur og fjölskyldu hennar.  Gígja er 11 ára handboltaiðkandi og ofurhetja sem er að berjast við krabbamein.  Hún á því í harðri baráttu og það reynir eðlilega á fjölskylduna.  Það var vel við hæfi að akkúrat þessi leikur yrði fyrir valinu, en Gígja á fjórar frænkur í liði KA/Þórs.

Þess má geta að allir borguðu sig inn, starfsmenn sem og leikmenn beggja liða, einhverjir lögðu svo frjáls framlög ofan á miðverð sitt.  Alls söfnuðust 386.000 krónur á leiknum.  Við þökkum öllum sem komu að þessu með okkur innilega fyrir og sendum áframhaldandi baráttukveðjur til Gígju og fjölskyldu hennar.  Stelpurnar töpuðu reyndar leiknum þrátt fyrir flotta framistöðu, 21-29, en nánar má lesa um leikinn hér.

Við viljum vekja athygli á að hægt er að styrkja Gígju og fjölskyldu hennar með því að leggja inn á styrktarreikning fjölskyldunnar:
0123-15-203456
kt.110380-5189


Leikmenn liðanna stilltu sér upp fyrir leik.
Umf. Selfoss / ÞRÁ