króatíu ferð
Team Nordic æfingabúðirnar í taekwondo fara fram í Iðu á Selfossi um helgina. Æfingar Team Nordic eru mjög hnitmiðaðar enda eru þjálfararnir þeir allra bestu á Norðurlöndum og gengur Team Nordic undir viðurnefninu „Champion factory“ innan taekwondoheimsins.
Þrír iðkendur Taekwondodeildar Umf. Selfoss hafa undanfarin misseri átt fast sæti í Team Nordic liðinu. Þetta eru systkinin Daníel Jens Pétursson og Dagný María Pétursdóttir og einnig fremsta taekwondokona landsins, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir. Þess má geta að þetta eru fjórðu æfingabúðirnar hjá okkar fólki á þessu ári. Skilyrði fyrir þátttöku í æfingabúðunum er að sýna framfarir á milli æfingabúða annars missir það sæti sitt í hópnum.
Í seinustu æfingabúðum sem fram fóru í Króatíu átti Taekwondodeild Umf. Selfoss helming iðkenda frá Íslandi. Það segir meira en mörg orð um stöðu deildarinnar sem státar af þjálfurum og nemendum sem eiga sæti í þessum æfingabúðum.
Þar sem æfingabúðirnar fara fram á Selfossi að þessu sinni fá allir svartbeltingar á á vegum taekwondodeildarinnar að njóta æfinganna sem gestir auk þess að keppa gegn alþjóðlegum keppendum.
---
Á myndinni eru Daníel Jens, Dagný María og Ingibjörg Erla í Króatíu á ágúst.
Mynd: Umf. Selfoss