Teo og Daniel farnir heim

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

Knattspyrnudeild Selfoss hefur komist að samkomulagi við Teo Tirado og Daniel Hatfield um að þeir hætti að leika með liði félagsins í Inkasso-deildinni í knattspyrnu.

Daniel hefur samið við félag í Englandi en Teo þarf að fara heim af fjölskylduástæðum.

Teo spilaði 16 leiki fyrir Selfoss í sumar í deild og bikar og skoraði fjögur mörk. Daniel hefur ekki spilað leik fyrir Selfoss í sumar en hann var varamarkvörður liðsins.

Félagaskiptaglugginn lokaði í gærkvöldi og fengu Selfyssingar heimamanninn Einar Guðna Guðjónsson, markvörð og fyrirliða Árborgar, í sínar raðir.

Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, segir að ekki hafi staðið til að bæta við öðrum leikmönnum en ungir heimamenn taka nú við keflinu og fá fleiri tækifæri til að sanna sig. Það sama gildir um miðvarðarstöðuna en fyrirliðinn Stefán Ragnar Guðlaugsson verður ekki meira með í sumar vegna meiðsla.

„Teo hefur lagt sitt af mörkum við að leiðbeina og móta ungu leikmennina okkar og nú er komið að þeim að taka við,“ sagði Gunnar í samtali við Sunnlenska.is.