Selfoss_merki_nytt
Þjálfararáðstefna Sveitarfélagsins Árborgar og Umf. Selfoss verður 11.-12. október en þema ráðstefnunnar er samvinna – liðsheild – árangur.
Dagskrá þjálfararáðstefnunnar.
Ráðstefnan er tvískipt þar sem föstudagurinn er stílaður inn á þjálfara sem starfa í Sveitarfélaginu Árborg. Laugardagurinn er hins vegar opinn öllum þjálfurum, stjórnarmönnum og áhugafólki um þjálfun. Viljum við sérstaklega hvetja alla félaga okkar víðsvegar af Suðurlandi til að fjölmenna á ráðstefnuna sem vonandi verður árviss viðburður.
Á föstudeginum eru sérstaklega skoðaðir samstarfsmöguleikar við stofnanir og aðra aðila sem vinna með börnum og unglingum í sveitarfélaginu og hvernig er hægt að vinna markvisst saman með hag unga fólksins að leiðarljósi. Páll Ólafsson frá Barnaverndarstofu mun flytja erindi og að lokum verður farið í öflugt hópefli.
Á laugardeginum er sjónum í ríkara mæli beint að þjálfunartengdum málefnum með erindum frá fjölbreyttum hópi virtra fyrirlesara.
- Gunnar Páll Jóakimsson þjálfari Anítu Hinriksdóttur hlaupara fjallar um Unglingaþjálfun, frá grunnþjálfun til afreksþjálfunar.
- Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu fjallar um Hvað þarf til að ná árangri?
- Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik talar um Liðsheild og árangur.
- Viðar Halldórsson, íþróttafélagsfræðingur ræðir um Árangur í íþróttum... og þáttur hins félagslega umhverfis.
Ráðstefnugjald fyrir laugardaginn er kr. 4.500 og greiðist við mætingu. Nánari upplýsingar og skráning sendist á netfangið umfs@umfs.is.
Þrátt fyrir að föstudagurinn sé settur upp fyrir þjálfara í Árborg er ekki lokað á að fleiri geti mætt þar. Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Gissur Jónsson framkvæmdastjóra Umf. Selfoss í síma 894-5070 eða umfs@umfs.is.
Hlökkum til að sjá ykkur á Þjálfararáðstefnu í Árborg,