Þuríður hlaut hvatningarverðlaun FRÍ

Selfoss - Frjálsar MÍ 11-15 - vefur
Selfoss - Frjálsar MÍ 11-15 - vefur

Á uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands þann 1. október sl. voru hvatningarverðlaun Frjálsíþróttasambandsins afhent þremur einstaklingum sem stuðlað hafa að framgangi íþróttarinnar með áberandi hætti. Það voru Selfyssingarnir Þuríður Ingvarsdóttir þjálfari hjá Umf. Selfoss og Þráinn Hafsteinsson þjálfari ÍR ásamt íþróttadeild RÚV sem hlutu verðlaunin.

Þuríður hefur starfað hjá frjálsiþróttadeild Selfoss í tæpa tvo áratugi og hefur verið eftir því tekið hversu margir efnilegir einstaklingar blómstra undir hennar stjórn. Síðustu tvö ár hefur lið HSK/Selfoss borið yfirburðasigur úr býtum á Meistaramót Íslands 11-14 ára og þar hefur Þuríður spilað mjög stórt hlutverk.

Á Selfossi æfa milli 40 og 50 krakkar undir hennar stjórn og eru bæði foreldrar og iðkendur mjög ánægðir með hennar störf. Á árum áður var Þuríður einnig einn af burðarstólpum í öflugu liði Selfoss og keppti með landsliði Íslands í frjálsum íþróttum.

Eftirtektarvert er að einstaklingarnir sem fengu verðlaun, þau Þuríður og Þráinn, eru bæði Selfyssingar en Umf. Selfoss hefur alið upp mjög marga af bestu þjálfurum landsins.

---

Þuríður efst í hópi iðkenda sinna á góðri stundu.
Ljósmynd: Umf. Selfoss