Á föstudaginn leikur meistaraflokkur Selfoss sinn fyrsta heimaleik gegn Fylki á tímabilinu klukkan 19:30. Fylkir er nýliði í fyrstu deildinni eftir 5 ára fjarveru, en þeir æfa einungis tvisvar í viku og spila leiki. Fylkir byrjaði tímabilið sitt með jafntefli gegn Fjölni 24-24. Það vantar þó ekki Selfyssinga og fyrrverandi leikmenn Selfoss í herbúðir Fylkis. En þeir eru Aðalsteinn Halldórsson, Ársæll Einar Ársælsson Ástgeir Sigmarsson, Eyþór Lárusson, Eyþór Jónsson, Gústaf Lilliendahl, Óskar Kúld Pétursson, Steinar Logi Sigurþórsson og Þorleifur Bóas Ragnarsson (Leifur Láka). Flestir af þessum mönnum voru í handboltaakademíunni. Leikmenn liðanna ættu því að þekkjast ágætlega. Fagnar heimasíðan að fá nýtt lið eins og Fylki í deildina og býður þá velkomna.
Selfoss byrjaði tímabilið á besta veg með því að sigra Gróttu 24- 25 sem var spáð efsta sætinu af forráðarmönnum liðanna. Það er því mjög mikilvægt að halda áfram að spila okkar bolta og ekki misstíga sig neinstaðar. Í tilefni af fyrsta heimaleiknum þá hafði heimasíðan samband við stórskyttuna Matthías Örn Halldórsson sem skoraði 9 mörk gegn Gróttu seinasta föstudag.
Frábær sigur á Gróttu í fyrsta leik, það hlítur að setja tóninn fyrir tímabilið?
Já þetta gerir það svo sannarlega. Við settum upp með það að mæta í fyrsta leik og gera okkar besta og sýna fólki að það væri lítið að marka spánna og að við værum lið sem ætti að taka alvarlega.
Fyrsti heimaleikurinn á morgun, hvernig er spennan í hópnum?
Það eru allir mjög spenntir og vel stemmdir fyrir leikinn. Það er alltaf gaman að spila á heimavelli fyrir framan fullt af áhorfendum og ég held að við séum allir sammála því að það er allt of langt síðan að við spiluðum síðasta heimaleik í deildinni.
Hverjir eru styrkleikar Selfoss í vetur?
Klárlega liðsheildin. Við erum með fullt af góðum leikmönnum sem eru vel spilandi og það er erfitt að mæta liði þar sem það eru svona margir góðir leikmenn því það er ekki nóg að stoppa bara einn heldur kemur bara næsti og skorar. Í ofanálag þá erum við allir góðir vinir og erum tilbúnir að gera allt fyrir manninn sem er við hliðina á manni og ég held að það séu ekki mörg önnur lið sem að geta státað sig af því.
Hvað veistu um Fylki?
Það eru fullt af Selfyssingum þar sem maður spilaði með í yngri flokkunum. Það verður virkilega gaman að taka á móti þeim á morgun, en ég er vissum að þeir muni selja sig dýrt.
Eitthvað að lokum?
Ég ætla að nota tækifærið og hvetja alla til þess að mæta á leikinn á morgun og um leið þakka fyrir stuðninginn í síðasta leik.