Handbolti - Hanna gegn Gróttu
Stelpurnar okkar mætti Gróttu í fjórðungsúrslitum Coca Cola bikarkeppninnar en leikið var á Selfossi.
Selfoss byrjaði leikinn af krafti og leiddi fyrstu mínútur leiksins en frábær kafli Gróttuliðsins gerði það að verkum að þær fóru með fimm marka forskot inn í hálfleikinn.
Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og náðu að jafna metin. Sóknarleikur liðsins var allt annar, gekk eins og smurð vél og smátt og smátt söxuðu þær á forskot Gróttu þar til þær jöfnuðu leikinn í 15-15 eftir 10 mínútur.
Næstu fimmtán mínútur leiksins voru æsispennandi. Gestirnir leiddu en liðin skiptust á mörkum og varð munurinn aldrei meiri en eitt mark fyrr en á lokamínútum leiksins. Gróttukonur settu þá aftur í lás, náðu forskoti sem þær héldu allt til loka leiksins og unnu fjögurra marka sigur á 22-26.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 10/6 mörk, Adina Ghidoarca skoraði 5, Steinunn Hansdóttir og Kristrún Steinþórsdóttir 2 og Perla Ruth Albertsdóttir, Jóna Margrét Ragnarsdóttir og Elena Elísabet Birgisdóttir skoruðu allar eitt mark. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 8 skot í markinu.
Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is og eins eru myndir úr leiknum á vefnum FimmEinn.is.
---
Hrafnhildur Hanna var markahæst Selfyssinga.
Ljósmynd: FimmEinn.is/Eyjólfur Garðarsson.