Heimasíðan klárar viðtalsröðina sýna á þjálfara meistaraflokks karla Arnari Gunnarssyni. Hann þarf auðvitað ekkert að kynna fyrir Selfyssingum enda á sínu öðru tímabili sem mfl. þjálfari og einnig þjálfað yngri flokkana hér hátt í 10 ár. Hann gerði 2. flokk karla að bikarmeisturum á seinasta tímabili og einnig var hann að þjálfa 3. flokk karla ásamt Sebastian Alexanderssyni þegar þeir urðu deildar- og Íslandsmeistarar árið 2008.
Næsti leikur er gegn Gróttu, hvernig leggst sá leikur í þig?
Það er alltaf erfitt að spila gegn Gróttu þar sem þeir eru vel þjálfaðir og skipulagðir. Við munum reyna að mæta tilbúnir til leiks og það vonandi kemur okkur áfram. Bæði lið hafa tapað illa fyrir ÍBV undanfarið og ætla sér eflaust að bæta fyrir það.
Ertu ánægður með spilamennsku liðsins hingað til?
Svona bæði og. Vörn og markvarsla hefur verið á pari en við eigum enn mikið inni sóknarlega tel ég. Föstudagurinn næstkomandi er tilvalinn til að bæta úr því.
Eitthvað sem hefur komið á óvart í deildinni?
Í sjálfu sér ekki. Þetta er jöfn, spennandi og skemmtileg deild og er sorglegt hve litla umfjöllun hún fær. Þetta getur farið allavega og verðum við að standa klárir hvern leik.
Eitthvað að lokum?
Mér fannst að betur hefði mátt mæta í leikinn gegn ÍBV á föstudaginn síðastliðinn. Stuðningur þeirra sem mættu og mæta reglulega er frábær en enn skemmtilegra væri að hafa fullt hús. Selfyssingar verða ekki sviknir af því að koma og horfa á sitt lið spila. Því þetta eru ykkar strákar, fæddir hér og uppaldir!