Fyrirliði Selfyssinga Hörður Gunnar Bjarnarson svaraði nokkrum spurningum fyrir heimasíðuna um komandi vetur og fyrsta leik vetrarins annað kvöld gegn Gróttu kl 19:30 á Seltjarnanesi.
Hvernig leggst komandi vetur í þig?
Veturinn leggst bara vel í mig, undirbúningstímabilið hefur gengið vel og okkur hlakkar öllum mikið til að komast af stað í deildinni. Ég held að við höfum bætt okkur frá því á seinasta tímabili og að margir strákar sem fengu dýrmæta reynslu á seinasta tímabili, og liðið sem heild, séu tilbúnir að taka næsta skref. Deildin verður eflaust mjög jöfn einsog í fyrra og það verður hörkubarátta í öllum leikjum svo að þetta verður erfiður en mjög skemmtilegur vetur en það er alveg ljóst að við verðum að gefa allt í hvern einasta leik ef að við viljum ná árangri.
Ljósmynd: sunnlenska.is/Guðmundur Karl.
Fyrsti leikur vetrarins er gegn Gróttu á nesinu, hvernig meturðu möguleikana?
Það er alltaf erfitt að spila gegn Gróttu, sérstaklega á þeirra heimavelli, þeir eru með góðan stuðning á bak við sig þar og eru með sterkt lið. En ef við komum klárir í leikinn og spilum okkar leik þá eigum við alltaf möguleika á sigri, það er alveg sama hvort að við séum að spila gegn Gróttu eða einhverjum öðrum.
Hvernig hafa nýju leikmennirnir komið inn í hópinn?
Þeir hafa komið mjög vel inn í hópinn og hafa staðið sig vel í æfingaleikjunum hjá okkur og ég á von á því að þeir haldi því bara áfram. Þeir eru líka frábærir strákar og eru strax orðnir miklir Selfyssingar, einn þeirra er búin að kaupa Best of með Skímó og bókina þeirra og einn er byrjaður að tala um að fá sér Selfoss tattú.
Í ný útkomni spá er Selfoss spáð 4-5 sæti, er það raunhæf spá ?
Ef maður skoðar þessa spá þá var hún mjög jöfn og voru það aðeins nokkur stig sem að skildu að efsta sæti og 4.-5. sæti. Það er alveg ljóst að við ætlum okkur að enda ofar en 4.-5. sæti og ég yrði gríðarlega svekktur ef að við kæmumst ekki einu sinni í umspil. En það er líka ljóst að öllum liðunum sem var spáð í þessi efstu 5 sæti ætla sér að algjöru lágmarki 4.sæti svo þetta verður bara hörkubarátta fram í lok mars um sigur í deildinni og þessi efstu fjögur sæti.
Nú eru tvö ný lið í deildinni, Þróttur og Fylkir það hlýtur að vera gott fyrir deildina?
Það er alveg frábært að fá fleiri lið inn í deildina, það er frábært að sjá að það sé uppbygging í handboltanum og að fleiri lið séu að koma inn með meistaraflokka, það er eitthvað sem hefur vantað undanfarin ár. Ég man það þegar ég byrjaði í meistarflokki fyrir langa löngu þá voru 23-24 lið að keppa í meistaraflokki karla.
Eitthvað að lokum?
Ég ætla bara að vona að það koma sem flestir að styðja okkur í vetur einsog undanfarin ár, því að það er ómetanlegt að fá stuðning frá stúkunni og höfum við nú meira segja breytt nokkrum útivöllum í heimavelli á undanförnum árum. Það gefur manni svo sannarlega auka orku á seinustu mínútunum að heyra fólk klappa, kalla og hvetja úr stúkunni. Svo ég vil bara fyrir hönd okkar leikmannana þakka kærlega fyrir stuðninginn á undanförnum árum og vona að hann haldi áfram í vetur, með ykkar hjálp getur allt gerst!