2. flokkur áfram í bikarnum

Okkar menn í 2. flokki unnu í gær Fram í Safamýri í bikarkeppni HSÍ. Þurfti framlengingu til að ná úrslitum fram en sigurmarkið kom þremur sekúndum fyrir leikslok. Eftir venjulegan leiktíma stóð 30-30 en lokatölur urðu 36-35. Heimamenn höfðu yfir í leikhléi 15 - 13.

Selfyssingar þurftu mikið að hafa fyrir sigrinum og lögðu sig alla fram gegn gríðarlega sterku liði heimamanna. Strákarnir okkar sýndu að þeir eru engu síðri og þurfa nú að halda áfram og taka næstu skref. Mættu þeir miklu mótlæti í leiknum og virtist um tíma í fyrri hálfleik eins og þeir myndu missa einbeitingu og trú en þeir komu sterkari til baka. Það munaði gríðarlega miklu að fá Sigurð Má í lið Selfoss þó hann eigi enn dálítið í land. Því mikið munar um návist hans, öll vörnin verður þéttari og betri. Sigurður á aðeins eftir að verða betri og skila meiru til liðsins. Þá vantaði Janus Daða í lið Selfoss (fyrir utan auðvitað alla aðra sem fyrr hafa dottið út). Síðuritari taldi upp mýmarga leikmenn fyrir stuttu, sem eru farnir eða meiddir en taldi fjarri því upp alla. Var þetta fjórði sigur 2. flokks í röð og nú er bara að halda áfram.

Einar Sverrisson lék við hvern sinn fingur og skoraði 13 mörk. Var þetta ágæt leið til að svara landsliðsvalinu í vikunni en sitt sýnist hverjum þar. Matti var sterkur allan leikinn þó hann hafi horfið sóknarlega á löngum köflum. Andri lék vel en var óheppinn með mörg skotanna og Maggi var sterkur á línunni. Þá átti Trausti frábæra innkomu. Sverrir varði afar vel og sérstaklega úr dauðafærum.

Tölfræði: 
Einar 13/20 og 5 stoðsendingar 
Matti 6/14, 6 stoðsendingar og 8 brotin fríköst 
Andri H 5/16, 2 stoðsendingar og 4 brotin fríköst 
Trausti 5/5 
Maggi 4/5 
Siggi 2/3 og 2 brotin 
Felix, Jói Jóns og Keli skiluðu allir mikilvægu framlagi til liðsins sem og Helgi, Kammi og Örn. 
Sverrir varði 27/1