Strákarnir í 4. flokki léku í gær gegn KR-ingum í 8-liða úrslitum bikarkeppni yngri flokka. Selfyssingar unnu þar sannfærandi sigur 25-14 og eru því komnir í undanúrslit bikarsins. Frábær varnarleikur Selfoss í leiknum skóp þennan sigur.
Selfoss byrjaði betur í leiknum og komst í 4-2. Þeir bættu jafnt og þétt við muninn og komnir í 10-6 eftir 16 mínútur. Selfyssingar gerðu þá seinustu fimm mörk hálfleiksins og leiddu 15-6 í hálfleik. Í síðari hálfleik komst Selfoss mest 14 mörkum yfir 21-7 en KR-ingar minnkuðu aðeins muninn eftir það og lauk leiknum svo með 11 marka sigri okkar manna.
Varnarleikur Selfyssinga í leiknum small saman í þessum leik. Þar var samvinna leikmanna betri en hún hefur verið lengi og fótavinna leikmanna mikil. Það gerði það að verkum að Selfyssingar þvinguðu KR-inga í erfið skot og náðu oft að stela boltanum af þeim. Í sókninni var flæðið gott og leysti liðið vel þær varnarútfærslur sem KR-ingar reyndu í leiknum.