Barbára Sól semur til 2020

Knattspyrna - Barbára Sól Gísladóttir GKS
Knattspyrna - Barbára Sól Gísladóttir GKS

Sóknarmaðurinn Barbára Sól Gísladóttir hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.

Barbára, sem er sextán ára gömul, skrifaði undir sinn fyrsta samning við Selfoss í fyrra, en framlengdi nú út keppnistímabilið 2020.

Hún lék sína fyrstu meistaraflokksleiki í Pepsi-deildinni í fyrra og lék svo sautján leiki með Selfossi í 1. deildinni í sumar og skoraði fjögur mörk þegar liðið tryggði sér aftur sæti í deild þeirra bestu. Á lokahófi Selfoss var Barbára valin efnilegasti leikmaður meistaraflokks kvenna.

Barbára Sól hefur leikið sjö landsleiki með U17 ára liði Íslands á þessu ári og skorað í þeim tvö mörk og nýverið var hún valin í æfingahóp U19 ára landsliðsins í fyrsta sinn.

„Þrátt fyrir ungan aldur er Barbára Sól ein af okkar lykilmönnum. Með aukinni reynslu í meistaraflokki hefur hún hefur bætt sig mikið sem leikmaður og það verður gaman að fylgjast með henni spreyta sig í Pepsi-deildinni á komandi leiktíð,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss í samtali við Sunnlenska.is