Haukur Þrastarson
Það er ljóst að Selfyssingar munu keppa við Hauka um Íslandsmeistaratitilinn eftir að Haukar unnu ÍBV í oddaleik á laugardaginn. Haukarnir enduðu í fyrsta sæti í deildinni og eiga því heimavallaréttinn í einvíginu. Selfoss.net tók tali af Hauki Þrastarsyni sem hefur verið frábær í úrslitakeppninni og hefur skorað í henni 37 mörk, 14 sköpuð færi og 20 brotin fríköst. Við spurðum hann út í þetta magnaða Valseinvígi.
Þetta var hörkueinvígi og allt jafnir leikir gegn Völsurum, þó svo að það hafi farið 3-0. Þetta voru allt hörkuleikir í rimmunni og Valur er með gott lið, við spiluðum mjög góðan sóknarleik og vorum betri aðilinn þegar á reyndi. Þetta var virkilega sterkt að klára þetta í þremur leikjum, sem gefur okkur góða hvíld fyrir úrslitarimmuna og góðan tíma til að undirbúa okkur fyrir Haukana.
Hvernig líst þér á Hauka, þeir eru feyknasterkir.
Mér líst vel á einvígið gegn Haukum og tel okkur eiga góða möguleika þar. Þetta eru tvö góð lið og verður hörkueinvígi.
Hversu miklu máli skiptir stuðningur við liðið í leikjum sem þessum?
Það var ótrúlegt að finna stuðninginn í einvíginu gegn Val og sérstaklega hér heima. Við erum með bestu stuðningsmenn á landinu og þeir gefa okkur strákunum þennan auka kraft til að klára leikina. Það væri geggjað að fylla Ásvelli á þriðjudaginn.
Mynd: Haukur Þrastarsson í þriðja leik gegn Val í undanúrslitum.
Umf. Selfoss / JÁE