Selfoss_merki_nytt
Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við miðjumanninn Eva Banton um að leika með félaginu í Pepsi-deild kvenna á næsta keppnistímabili.
Eva, sem er 23 ára gömul, er ekki ókunnug íslenskri knattspyrnu en hún lék með Tindastóli í 1. deildinni síðastliðið sumar og gekk svo í raðir Þróttar R. í júlíglugganum.
Í lok sumars var hún kosin í úrvalslið ársins í 1. deild kvenna af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar, í kosningu Fótbolti.net.
„Ég er mjög spennt fyrir komandi keppnistímabili. Ég á von á því að ef við leggjum hart að okkur þá getum við fest okkur í sessi í Pepsi-deildinni. Eftir að hafa spilað gegn Selfossliðinu síðasta sumar er ég viss um að við eigum möguleika á að standa okkur vel í deildinni. Ef við spilum eins og lið þá munum við ná góðum árangri,“ segir Eva.
Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss, er mjög ánægður með komu Banton til félagsins:
„Ég heillaðist af henni á vellinum í sumar og er ótrúlega ánægður með að fá hana í okkar raðir. Hún kemur klárlega til með að styrkja okkur innan sem utan vallar. Þetta er hörkuleikmaður sem á eftir að smellpassa inn í umhverfið okkar hér á Selfossi,“ segir Alfreð.
Á myndinni skrifar Eva undir samninginn við Selfoss. Ljósmynd/PFC Sports Management