NM EVA
Eva María Baldursdóttir náði þeim frábæra árangri að krækja sér í silfurverðlaun í hástökki á Norðurlandameistaramóti í frjálsum íþróttum undir 20 ára aldri sem fram fór í Noregi helgina 17.-18.ágúst sl. Ísland og Danmörk senda sameiginlegt lið til keppninnar og velja tvo keppendur í hverja keppnisgrein. Eva María stökk yfir 1.76m og jafnaði sinn besta árangur en finnska stúlkan sem vann stökk yfir 1.79m. Frábær árangur hjá Evu Maríu sem er búin að eiga frábært sumar og sanna sig á meðal þeirra bestu. Eva María sem er eingöngu 16 ára gömul keppti í flokki stúlkna 19 ára og yngri. Eva María var fyrr í sumar i öðru sæti á Gautaborgarleikunum í frjálsum íþróttum, auk þess sem hún varð Íslandsmeistari í fullorðinsflokki og sigraði Unglingalandsmótið á Höfn á nýju mótsmeti. Hún náði einnig lágmarki snemma í vor í Stórmótahóp FRÍ. Virkilega glæsilegur árangur hjá þessum efnilega stökkvara.
Hildur Helga Einarsdóttir, 17 ára, náði einnig þeim frábæra árangri að verða valin í sameiginlegt lið Íslands og Danmerkur. Hún keppti í spjóti, kastaði 37,19m og endaði í 7.sæti. Frábært hjá henni en hún var einnig að keppa í flokki stúlkna 19 ára og yngri. Keppt var með 600gr spjóti en Hildur Helga keppir vanalega með 500gr spjót í sínum aldursflokki. Hildur Helga er búin að eiga flott keppnissumar og raða inn titlum, þrefaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki og tvöfaldur Unglingalandsmótsmeistari.