Áramót Fjölnis, sem jafnframt varr síðasta frjálsíþróttamót ársins 2011, fór fram fimmtudaginn 29. des. sl. í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. HSK/Selfoss átti þar sjö keppendur sem allir stóðu sig með ágætum og lofar árangurinn góðu fyrir komandi innanhússkeppnistímabil. Uppskeran var tvö gull, fimm silfur og fjögur brons, nokkrar persónulegar bætingar og tvö HSK-met.
Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, er í góðu formi þessa dagana. Hún keppti í þremur greinum og bætti sig í þeim öllum og sett meðal annars tvö HSK-met. Hún byrjaði á því að stökkva 1,66 m í hástökki og bætti sig um 1 cm. Hún var grátlega nærri því að fara 1,69 m. Hún varð önnur á jöfnu. Því næst skellti hún sér í 60 m grindahlaup. Þar kom hún í mark í mjög góðu hlaupi, sjónarmun frá sigri, á nýju HSK-meti, 9,06 sek. Gamla metið sem var 9,09 sek var í eigu Bryndísar Evu Óskarsdóttur Selfossi. Að síðustu vann Fjóla brons í 400 m hlaupi á tímanum 57,91 sek í hörku hlaupi þar sem úrslit réðust á síðustu metrunum. Þetta er bæting á hennar eigin HSK-meti en það var 58,35 sek.
Eva Lind Elíasdóttir, Þór, keppti í fjórum greinum. Hún sigraði kúluvarpið örugglega með góðu kasti upp á 10,71 m, tók silfur í 60 m hlaupi á 8,48 sek og í þrístökki með 9,84 m stökki. Hún varð svo sjötta í hástökki með 1,40 m.
Andrea Sól Marteinsdóttir, Selfossi, varð önnur í langstökki með 4,45 m, þriðja í þrístökki með 9,67m stökki og svo fjórða í 60 m hlaupi á 8,88 sek. Þess má til gamans geta að þær Eva Lind og Andrea Sól eru í Afrekshópi FRÍ í kúluvarpi.
Sólveig Helga Guðjónsdóttir spretthlaupari frá Selfossi varð önnur í 200 m hlaupi á tímanum 27,71 sek og þriðja í 60 m hlaupi er á 8,62 sek.
Kristín Rut Arnardóttir, Selfossi, varð þriðja í langstökki og bætti besta árangur sinn um 16 cm, stökk 4,20 m. Þá varð hún í 4.-5. sæti í hástökki með því að jafna sinn besta árangur og vippa sér yfir 1,45 m. Hún varð svo fimmta í 60 m hlaupi á 9,00 sek.
Haraldur Einarsson, spretthlaupari úr Vöku, átti ágætt fyrsta mót vetrarins. Hann kom fjórði í mark í jöfnu 60 m hlaupi á tímanum 7,37 sek og varð svo fimmti í 200 m hlaupi á 23,58 sek.
Að síðustu sigraði Ólafur Guðmundsson, Laugdælum, í kúluvarpi er hann varpaði henni 12,90 m.
Ólafur Guðmundsson
Efri mynd: Fjóla Signý setti 2 HSK-met og bætti persónulegan árangur sinn í þremur greinum (öllu sem hún keppti í). Ólafur sem sigraði kúluvarp karla.
Neðri mynd: Frá vinstri: Fjóla Signý, Eva Lind, (Guðrún Heiða) og svo Sólveig Helga á bikarkeppninni utanhúss í sumar á Kópavogsvelli: Allar stóðu þær sig með ágætum á Áramóti Fjölnis (Guðrún Heiða keppti ekki).