fjóla íslmeist
Meistaramót Íslands í fjölþrautum fór fram helgina 17.-18. ágúst sl. á Akureyri. Veðuraðstæður voru fremur óhagstæðar, kuldi og vindur sem gerðu þrautina enn erfiðari fyrir keppendur. Tveir keppendur frjá Frjálsíþróttadeild Selfoss tóku þátt í mótinu og urðu báðir Íslandsmeistarar.
Fjóla Signý Hannesdóttir náði þeim frábæra árangri að verða Íslandsmeistari kvenna í sjöþraut. Hún krækti sér í 4529 stig. Hún hljóp 200m á 26,81 sek, hljóp 100m grind á tímanum 14,55 sek, stökk 1.64m í hástökki og 5.20m í langstökki. Kastaði kúlunni 9,61m og spjótinu 23,72m og endaði á því að hlaupa 800m á 2:34,37 mín. Frábært hjá okkar ötulu afrekskonu. Fjóla Signý er búin að eiga flott keppnissumar og hún er öðrum iðkendum deildarinnar mikil hvatning, frábær liðsmaður sem gefst aldrei upp.
Dagur Fannar Einarsson varð Íslandsmeistari í tugþraut í flokki 16-17 ára með 6291 stig. Þessi árangur hjá honum er yfir HSK metinu sem hann setti sjálfur fyrr í sumar en því miður var vindur yfir leyfilegum mörkum. Þess má geta að Dagur Fannar hefði komist inn í Stórmótahóp FRÍ ef þrautin hefði verið lögleg. Hann hljóp 100m á 11,54sek, 400m hljóp hann á 53,22 sek og 1500m á 4:40,,42mín. Hann hljóp 110m grindina á tímanum 15,32sek, stökk yfir 1.72m í hástökki og stökk 6,40m í langstökki. Í stangarstökki flaug hann yfir 3,54m og hann kastaði kúlunni 12,12m og spjótið flaug 46,38m. Frábær árangur hjá okkar efnilega tugþrautarmanni. Dagur Fannar er búinn að vera á mikilli siglingu í allt sumar, hann er virkilega duglegur að æfa og frábært efni í góðan tugþrautarmann.