IMG_4405
Íslandsmót unglinga í hópfimleikum fór fram í Versölum í Kópavogi um seinustu helgi.
Í 1. flokki kvenna var spennandi keppni sex félaga en lið Selfyssinga, sem samanstendur af stúlkum á aldrinum 13-16 ára, nældi sér í bronsverðlaun.
Lið Selfoss í 2. flokki kvenna, sem eingöngu er skipað stúlkum á yngra ári, endaði í 4. sæti í heildina og bættu sig um 1,2 stig síðan í haust.
Selfoss tefldi fram tveimur liðum í 3. flokki kvenna. Selfoss 1 keppti í A-deild og uppskar silfur eftir harða baráttu við Stjörnuna. Selfoss 2 keppti í B-deild, bættu sig um rúmlega heilan í samanlögðum stigum og endaði í sjöunda sæti. Stelpurnar í báðum liðum eru að mestum hluta á yngra ári í flokknum og má því segja að framtíðin sé björt.
Selfossstúlkur í 4. flokki gerðu sér lítið fyrir og nældu sér í Íslandsmeistaratitil. Þær gerðu svakalega gott mót og voru efstar á öllum áhöldum. Lið Selfoss 2 sem keppti í B-deild áttu líka mjög flott mót og sigruðu sína deild með nokkrum yfirburðum. Lið Selfoss 3 sem einnig keppti í B-deild enduðu í sjötta sæti og stelpurnar í Selfoss 4 sem kepptu í C-deild enduðu í fimmta sæti. Frábært mót hjá þessum stúlkum.
Í 5. flokki kvenna, sem er yngsti flokkurinn á Íslandsmótinu, átti Selfoss eitt lið sem sýndi frábæra takta á öllum áhöldum. Þar fengu allir viðurkenningu fyrir þátttökuna.
Strákarnir í eldri flokki drengja nældu sér í silfurverðlaun og bættu sig verulega frá haustmótinu.
Í yngri flokki drengja átti Selfoss tvö lið. Selfoss 1 gerði sér lítið fyrir og hampaði Íslandsmeistaratitli eftir glæsilegar æfingar á öllum áhöldum. Selfoss 2 sýndi einnig frábærar æfingar og endaði í þriðja sæti.
Næst á dagskrá er vormót í maí en að þessu sinni verður það haldið á Egilsstöðum.