Frábær sigur á Breiðabliki

Sigur á Breiðablik
Sigur á Breiðablik

Stelpurnar okkar unnu í gær frábæran sigur á Breiðabliki í Pepsi-deildinni. Lokatölur urðu 2-3 eftir æsispennandi lokamínútur.

Breiðablik hafði nokkra yfirburði í upphafi leiks en upp úr miðjum hálfleiknum tóku Selfyssingar öll völd á vellinum. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins að Blikar skoruðu fyrsta mark leiksins á 26. mínútu. Selfyssingar létu það ekkert á sig fá og komust yfir fyrir hálfleik með glæsilegum skallamörkum frá Dagnýju Brynjarsdóttur og Ernu Guðjónsdóttur á tveggja mínútna kafla undir lok hálfleiksins.

Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu. Selfyssingar vörðust vel, gáfu fá færi á sér og beittu á sama tíma öflugum skyndisóknum sem voru oft nálægt því að skila marki. Það voru þó Blikar sem náðu að jafna metin fimm mínútum fyrir leikslok. Selfyssingar lögðu ekki árar í bát heldur blésu til sóknar sem endaði með því að Guðmunda Brynja Óladóttir tryggði sætan sigur Selfyssinga í blálokin.

Eftir leikinn er Selfoss er með 9 stig í 5. sæti deildarinnar. Næsti leikur er á JÁVERK-vellinum kl. 19:15 þriðjudaginn 24. júní þegar Íslandsmeistarar Stjörnunnar koma í heimsókn. Hvetjum alla Selfyssinga og Sunnlendinga til að fjölmenna á völlinn og styðja stelpurnar.

Fjallað var um leikinn á vef Sunnlenska.is.

---

Fögnuður Selfyssinga var ósvikinn í leikslok.
Mynd: Umf. Selfoss/Gissur