HSK á þingi UMFÍ 2019
51. sambandsþing UMFÍ var haldið á Hótel Laugarbakka í Miðfirði um síðustu helgi. Um 100 fulltrúar mættu á þingið. HSK sendi 19 manna fullmannað þinglið til þings sem tók virkan þátt í störfum þingsins.
Helstu tíðindi þingsins voru að þingfulltrúar samþykktu með nær öllum atkvæðum umsókn íþróttabandalaga að UMFÍ. Við inngönguna fá íþróttabandalögin stöðu sambandsaðila innan UMFÍ. Þau íþróttabandalög sem hafa staðfest umsókn sína eru Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA) og Íþróttabandalag Akraness (ÍA).
Haukur Valtýsson var sjálfkjörinn formaður UMFÍ til næstu tveggja ára. Í aðalstjórn voru kjörin Guðmundur Sigurbergsson frá UMSK, Gunnar Þór Gestsson frá UMSS, Gunnar Gunnarsson frá UÍA, Jóhann Steinar Ingimundarson frá UMSK, Ragnheiður Högnadóttir frá USVS og Sigurður Óskar Jónsson frá USÚ.
Í varastjórn voru kjörin Gissur Jónsson frá HSK, Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir frá UDN, Hallbera Eiríksdóttir frá UMSB og Lárus B. Lárusson frá UMSK. Þau Elísabet, Gissur og Hallbera eru ný í varastjórn UMFÍ.
Helga Guðrún Guðjónsdóttir, fyrrverandi formaður UMFÍ, var gerð á heiðursfélaga UMFÍ, sem er æðsta viðurkennig sem UMFÍ veitir. Helga var um tíma búsett á sambandssvæði HSK.
Örn Guðnason og Hrönn Jónsdóttir voru sæmd gullmerki UMFÍ á þinginu. Þau hafa setið í stjórn UMFÍ, en gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Örn og Hrönn eru bæði búsett á sambandssvæði HSK. Örn hefur átt sæti í stjórn UMFÍ í samtals 10 ár og Hrönn í sex ár. Öll eru þau vel að þessum viðurkenningum komin fyrir þeirra góðu störf fyrir hreyfinguna í áratugi.
Fleiri fréttir frá þingingu má sjá á www.umfi.is.
---