Góður árangur HSK/Selfoss á Meistaramóti Íslands 11-14 ára

Meistaramót Íslands 11-14 ára fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um síðustu helgi. Lið HSK/Selfoss varð í 3. sæti í heildarstigakeppninni. Liðið vann stigakeppni 13 og 14 ára pilta og 13 ára stúlkna og varð í 2. sæti í flokki 12 ára pilta. Alls unnust 10 gull, 8 silfur og 4 brons, sem verður að teljast góður árangur.

Styrmir Dan Steinunnarson Þór vann þrjú gull í flokki 13 ára pilta, stökk 1,63 m í hástökki, kastaði kúlu 12,21 m og hljóp 60 m grindahlaup á 10,08 sek. Hann varð 2. í langstökki með 5,26 m og í 60 m hlaupi á 8,47 sek. Halla María Magnúsdóttir Selfossi vann þrjú gull í flokki 13 ára stúlkna. Hún hljóp 60 m hlaup á 8,54 sek og 60 m grindahlaup á 10,35 sek. Harpa Svansdóttir Selfossi varð þriðja á 10,72 sek. Halla tók svo þriðja gullið í kúluvarpi þar sem hún setti HSK-met og kastaði 12,77 m. Harpa varð svo önnur í kúlunni með 10,93 m. Harpa vann gull í langstökki í 13 ára flokki stúlkna er hún stökk 4,79 m. Stefán Narfi Bjarnason Baldri vann kúluvarpið í flokki 12 ára pilta með 8,13 m kasti. Sindri Steinn Sigurðsson Selfossi varð 2. með 7,39 m. Pétur Már Sigurðsson Selfossi vann hástökk í flokki 12 ára pilta er hann stökk 1,42 m. 14 ára sveit pilta vann svo gull í 4x200 m boðhlaupi á tímanum 1:55,65 mín. Gestur Jónsson Dímon vann silfur í hástökki 11 ára pilta með því að stökkva 1,26 m. Gestur vann brons í 60 m hlaupi á 9,53 sek. Teitur Örn Einarsson Selfossi varð í 2. sæti í kúluvarpi 14 ára pilta með því að kasta 10,83 m. Boðhlaupssveitir 13 ára stúlkna og pilta unnu líka silfur. Guðjón Andri Jóhannsson Garpi stökk 1,56 m í hástökki 14 ára og varð í 3.-4. Helga Margrét Óskarsdóttir Selfossi vann brons í 60 m hlaupi á 9,52 sek.

HSK/Selfoss gerði góða hluti þó ekki næðu allir keppendur á pall. Liðið átti nokkra keppendur í 4.-8. sæti og oft í úrslitum í spretthlaupunum. Krakkarnir voru oftar en ekki að bæta sinn persónulega besta árangur.

Að lokum má geta þess að HSK/Selfoss sigraði í 4x200 m boðhlaupi pilta 14 ára og varð að auki í öðru sæti hjá 13 ára piltum og stúlkum. En frábær árangur og ljóst að efniviðurinn í frjálsum á Suðurlandi er nægur. Það þarf bara að hlúa vel að honum.

-óg/ög

Mynd: Íslandsmeistarar í stigakeppni félaga í flokki 13 ára stúlkna og pilta og flokki 14 ára pilta.