Screen Shot 2020-02-27 at 7.21.33 PM
Jæja þá er komið að því kæru félagar!!
Í ár eru heil 11 ár síðan Guðjón Ægir Sigurjónsson vinur okkar kvaddi þennan heim langt fyrir aldur fram. Til þess að halda minningu hans á lofti um ókomna tíð þá er haldinn árlega Guðjónsdagurinn með hinu sívinsæla og bráðskemmtilega Guðjónsmóti.
Dagurinn hefst laugardaginn 7. mars 2020 kl. 10:00 um morguninn í Hleðslu-höllinnni (Iða íþóttahús) með Guðjónsmótinu í fótbolta, sem er firma- og hópakeppni.
Eins og fyrr segir að þá hefst mótið kl. 10:00 laugardaginn 7. mars. Leiktíminn verður 1x7 mínútur og verður spilað í 4 riðlum þar sem efstu tvö lið hvers riðils munu komast áfram í undanúrslit. Einungis er löglegt að hafa einn leikmann, sem er með skráðan leik í íslandsmóti eða bikarkeppni karla eða kvenna keppnistímabilið 2019 (sama hvaða deild það er) inná í einu.
Nánari upplýsingar varðandi reglur mótsins er hægt að fá við skráningu liðs. Það eru 20 lið sem taka þátt í ár og því um að gera skrá sitt lið við fyrsta tækifæri.
Uppselt hefur verið í mótið síðustu ár og færri komist að en vilja.
Skráning er hjá Sævari í síma: 899-0887 eða saevarthor@olgerdin.is eða Þorsteini Daníel í síma: 7738827 eða thorsteinn9411@gmail.com. Þátttökugjaldið er 30.000.-kr á lið.
Okkur þætti virkilega vænt um að liðin sem taka þátt sjái sér fært um að mæta í skrautlegum búningum í anda Guðjóns heitins og ekki verra ef stuðningsmannahóparnir væru skreyttir líka.
Veitt verða verðlaun fyrir 3 efstu sætin (1.2.3) auk þess verða verðlaun veitt fyrir bestu búninga og eftirtektarverðasta leikmanninn. Einnig verða veitt verðlaun fyrir besta stuðningsliðið í stúkunni.
Þetta er viðburður sem enginn má láta framhjá sér fara, taumlaus gleði, grín og misgóðir sparksnillingar að reyna fyrir sér á vellinum. Sigurvegarar í fyrra voru MS-mjólkursamsalan og verður áhugavert að fylgjast með hvort þeir nái að verja titilinn í ár.
Láttu þig ekki vanta laugardaginn 7. mars n.k. og taktu þátt í skemmtilegum degi með okkur til minningar um frábæran félaga.