Laugardaginn 4. febrúar mun knattspyrnudeild Selfoss standa fyrir Guðjónsdeginum 3. árið í röð, en Guðjónsdagurinn er haldinn til minningar um frábæran félaga og vin, Guðjón Ægi Sigurjónsson.
Guðjónsmótið hefst kl. 9:30 um morguninn í Íþróttahúsinu Iðu, Íþróttahúsi Vallaskóla og á skólavellinum við Vallaskóla. Guðjónsmótið í knattspyrnu er firma- og hópakeppni. Leiktíminn verður sá sami og í fyrra eða 1x8 mínútur. Spilað verður í riðlum þar sem efsta lið hvers riðils fer áfram í undanúrslit. Einungis er hægt að taka á móti 22 liðum eða hópum þannig að það er um að gera að skrá sig sem fyrst. Skráning er hjá Sævari í síma 899-0887 og Sveinbirni 897-7697. Þátttökugjaldið er 25.000 kr. á lið.
Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, auk ýmissa aukaverðlauna. Þetta er viðburður sem enginn má láta fram hjá sér fara, taumlaus gleði og grín og misgóðir sparksnillingar að reyna fyrir sér í knattspyrnu. Sigurvegarar síðustu tveggja ára, Myrra snyrtistofa, verða með, en vitað er fyrir víst að þeir fá verulega keppni þetta árið.
Að móti loknu verður svo stanslaust stuð í Hvíta húsinu á styrktarballi knattspyrnudeildarinnar. Þar mun hið magnaða BOLTABAND halda uppi fjörinu fram á nótt. Boltabandið skipa þeir Njörður Steinarsson, Adolf Ingvi Bragason (Bjórbandinu), Leifur Viðarsson (OFL og laga/textahöfundur fyrir Ingó), Herbert Viðarsson, Gunnar Ólason, Hanni Bach og Karl Þór Þorvaldsson (allir Skímó meðlimir). Hafa þeir lofað gríðarlegu stuði og almennri skemmtun. Húsið opnar kl. 23:00 og stendur ballið e-h fram á nótt. Miðaverð er 2000 kr. Væntanlega verður forsala og verður hún auglýst síðar.
Láttu þig ekki vanta laugardaginn 4. febrúar.
Taktu þátt í frábærum degi með skemmtilegum félögum til minningar um frábæran félaga.