Þau Guðmundur Kr. Jónsson og Hrafnhildur Guðmundsdóttir fengu afhentan heiðurskross ÍSÍ í sérstöku afmælishófi sem haldið var í Ráðhúsi Reykjavíkur í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Bæði hafa þau starfað í áratugi innan íþróttahreyfingarinnar. Ungmennafélag Selfoss óskar þeim innilega til hamingju með þessa viðurkenningu.
Guðmundur hóf ungur að iðka frjálsar íþróttir og var afburða spretthlaupari og stökkvari. Hann vann mörg glæst afrek bæði á héraðs- og landsvísu og var til að mynda stigahæsti keppandinn í karlaflokki á Landsmóti UMFÍ á Laugarvatni árið 1965, en þar sigraði hann bæði í 100 metra hlaupi og þrístökki. Hann varð snemma öflugur félagsmálamaður, tók virkan þátt í starfi heima í héraði, í sínu félagi Umf. Selfoss. Guðmundur var m.a. formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss árin 1968-1979 og síðar framkvæmdastjóri félagsins, ásamt því að vera vallarstjóri á Selfossvelli. Guðmundur var kjörinn formaður HSK árið 1981 og hélt um stjórnartaumana í átta ár með miklum myndarskap. Hann tók þá sæti í varastjórn ÍSÍ í tvö ár, tímabilið 1992-1994. Guðmundur Kristinn tekur enn virkan þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar með ýmsum hætti. Á síðasta ári átti hann m.a. sæti í 75 ára afmælisnefnd Umf. Selfoss.
Hrafnhildur er mikil afrekskona í sundi. Hún varð 35-faldur Íslandsmeistari á árunum 1957-1972 og setti á þeim tíma alls 75 Íslandsmet í 22 sundgreinum 5 sundaðferða og eru þá boðsundsmetin ótalin. Hún var langfremsta sundkona landsins á árunum 1962-66 og átti þá öll Íslandsmet kvenna, 18 að tölu, nema í 1500 m. Hún varð Reykjavíkurmeistari 20 sinnum en hún keppti fyrir ÍR lengst af. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikunum 1964 í Tókýó og 1968 í Mexíkó. Þegar íþróttaferlinum lauk hóf Hrafnhildur að þjálfa sund, lengst af í Þorlákshöfn. Hún þjálfaði meðal annars börn sín en fjögur þeirra fetuðu í fótspor móður sinnar og voru meðal fremstu sundmanna landsins. Hún endaði farsælan þjálfaraferil sinn árið 2010 hjá sunddeild Umf. Selfoss. Hrafnhildur átti sæti í Ólympíunefnd Íslands og hefur auk þess setið í ýmsum í nefndum og ráðum á vegum Sundssambands Íslands.