Selfoss_merki_nytt
Miðjumaðurinn Halldóra Birta Sigfúsdóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss, en hún gekk í raðir félagsins í sumar frá Fjarðabyggð.
Halldóra Birta er sextán ára gömul og spilaði sex leiki með Selfossi í 1. deild kvenna í sumar. Í haust var hún svo valin í fyrsta sinn í U17 ára landslið Íslands og lék þrjá leiki með liðinu í undankeppni Evrópumeistaramótsins 2018.
„Halldóra Birta kom til okkar í júlíglugganum og hjálpaði okkur mikið í lokahluta mótsins. Hún er búin að bæta sig sem leikmaður síðan hún kom til okkar og er tilbúin að leggja mikið á sig enda með frábært hugarfar. Hún á eftir að þróa sinn leik ennþá meira og er klárlega framtíðarleikmaður Selfoss,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.
Á myndinni handsala Halldóra Birta og Svava samninginn.