Þór og Egill Haustmót 2014 - vefur
Á dögunum voru Haustmót Júdósambands Íslands haldin í umsjá Júdódeildar Umf. Selfoss og Júdódeildar Ármanns.
Haustmót seniora 2014 var haldið í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi laugardaginn 4. október. Þar voru tuttugu bestu júdómenn landsins voru mættir og átti Júdódeild Umf. Selfoss þrjá keppendur. Það voru þeir Grímur Ívarsson, Egill Blöndal og Þór Davíðsson sem kepptu allir í sama þyngdarflokki -90 kg ásamt Sveinbirni Yura, þrautreyndum júdómanni frá Ármanni.
Gaman var að sjá hvað ungu júdómennirnir Grímur og Egill veittu þeim Þór og Sveinbirni mikla keppni en fór svo að Grímur lenti í fjórða sæti og Egill í þriðja sæti. Þór og Sveinbjörn fóru í úrslitaviðureignina sem var mest spennandi viðureign mótsins og eftir fimm mínútna viðureign var komið að gullskori. Þar náði Sveinbjörn að skora yoko og stóð uppi sem sigurvegari en Þór varð að láta sér lynda annað sætið.
Margar aðrar glæsilegar viðureignir sáust og flott köst.
Úrslit á Haustmóti fullorðinna 2014
Haustmót 2014 í yngri aldursflokkum þ.e. U13/U15/U18 og U21 árs var haldið laugardaginn 11. október í húsakynnum Júdódeildar Ármanns. Keppendur voru 51 frá átta júdóklúbbum og var hart barist.
Fimm keppendur frá Júdódeild Umf. Selfoss voru mættir á mótið. Krister Andrason hlaut silfur í -38 kg flokki U13. Hrafn Arnarsson hlaut einnig silfur í -66 kg flokki U15. Halldór Bjarnason hlaut brons í -73 kg flokki U15. Grímur Ívarsson vann allar sínar viðureignir og hlaut gull í -90 kg flokki U18. Grímur keppti einnig í -90 kg flokki U21 en þar keppti einnig Egill Blöndal. Fór svo að Egill vann allar sínar viðureignir og hlaut gull en Grímur hlaut silfrið.
Úrslit á Haustmóti yngri flokka 2014
Myndir frá mótunum er að finna á flickr síðu Davíðs Áskelssonar
Á myndinni sem fylgir fréttinni eru Þór t.v. og Egill t.h. ásamt Sveinbirni eftir verðlaunaafhendingu í Iðu.