Á uppskeruhátíð Íþrótta- og tómstundanefndar Árborgar, sem fram fór 28. desember sl. í hátíðarsal Fjölbrautskóla Suðurlands, voru þau Jón Daði Böðvarsson, knattspyrnumaður Selfossi, og Guðmunda Brynja Óladóttir, knattspyrnukona Selfossi, útnefnd íþróttamaður og íþróttakona Árborgar 2011. Þau stóðuð sig bæði frábærlega á árinu og léku m.a. með ungmennalandsliðum Íslands. Alls var 21 íþróttamaður tilnefndur, tíu konur og ellefu karlar.
Hjá körlunum fékk Jón Daði 170 stig, Sigursteinn Sumarliðason, hestamaður Sleipni, 81 stig og Hlynur Geir Hjartarson, golfmaður GOS, 78 stig. Hjá konunum fékk Guðmunda Brynja 211 stig, Fjóla Signý Hannesdóttir, frjálsíþróttakona Selfossi, 143 stig og Helga Hjartardóttir, fimleikakona Selfossi, 67 stig.
Knattspyrnudeild Umf. Selfoss fékk hvatningarverðlaun ÍTÁ 2011. Einnig voru afhentir styrkir úr afreks- og styrktarsjóðum Árborgar og íþróttafélaganna. Þá fékk Körfuknattleiksfélag FSu afhenta viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
-ög
Mynd: Guðmunda Brynja Óladóttir, íþróttakona Árborgar 2011 og Jón Daði Böðvarsson, íþróttamaður Árborgar 2011. Ljósmynd: MHH.