Jón Daði á stúkunni - Ljósmynd frá Sunnlenska.is JóhannaSH
Eins og alþjóð veit átti Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson frábæra leiki fyrir Ísland á Evrópumótinu sem fram fór í Frakklandi fyrr í sumar. Við fylltumst stolti að fylgjast með þessum knáa knattspyrnumanni og þátttöku hans í EM-ævintýrinu.
Jón Daði er nú „kominn heim" og prýðir norðurenda stúkunnar við JÁVERK-völlinn eins og fjallað var um á vef Sunnlenska.is.
Sunnlenska fylgdist vel með Jóni Daða í mótinu og birti reglulega fréttir af honum. Meðal annars segir hann Evrópumótið „Aðeins stærra en Shellmótið", lýsir tilfinningunni að skora á Evrópumóti sem er „Eitthvað sem alla fótboltamenn dreymir um" og að lokum rifjaði hann upp hversu það er „Stutt síðan maður var að spila á Selfossi".
Við óskum Jóni Daða til hamingju með frábæran árangur með íslenska landsliðinu og fögnum því að hafa „fengið hann heim" á stúkuna okkar.
---
Jón Daði tekur sig vel út á stúkunni og er glæsileg fyrirmynd knattspyrnufólks á Selfossi.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Jóhanna SH