MÍ 11-14 ára - Sigurlið Sunnlendinga
Lið HSK/Selfoss vann stigakeppni þátttökuliða á MÍ í frjálsum 11-14 ára sem haldið var í Laugardalshöllinni 9.–10. febrúar sl. Það voru 74 keppendur af sambandssvæði HSK skráðir til leiks, en nokkuð var um förföll vegna veikinda, meiðsla og annarra verkefna keppenda.
Lið HSK/Selfoss hlaut samtals 600 stig. Breiðablik varð í öðru sæti með 437 stig eftir hörkukeppni við FH og Ármann. Lið HSK vann stigakeppnina í þremur aldursflokkum, í flokki pilta 11 ára, pilta 13 ára og stúlkna 14 ára.
Keppendur HSK unnu samtals átta Íslandmeistaratitla, fjórtán silfur og tólf brons. Fámennt lið Kötlu úr V-Skaftafellsýslu stóð sig vel og unnu keppendur liðsins tvo Íslandsmeistaratitla og þrjú verðlaun samanlagt.
Eitt HSK met var sett á mótinu. Vésteinn Loftsson bætti HSK metið í 60 metra hlaupi í 11 ára flokki um 0,01 sek. en hann hljóp á 9,06 sek. Viktor Karl Halldórsson átti gamla metið. Margir voru að bæta sinn persónulega árangur á mótinu, eins og sjá má á mótaforriti FRÍ. HSK krakkarnir settu 118 persónuleg met og Kötlu keppendurnir bættu sig í níu greinum samtals.
Heildarúrslit eru á www.fri.is.
Úr fréttabréfi HSK