MÍ | Kristinn Þór og Guðrún Heiða Íslandsmeistarar

Frjálsar - MÍ Kristinn Þór Kristinsson
Frjálsar - MÍ Kristinn Þór Kristinsson

Helgina 8.-9. júlí sl. fór aðalhluti Meistaramóts Íslands (MÍ) í frjálsíþróttum fram á Selfossi. Um 200 keppendur voru skráðir til leiks sem er með því mesta sem gerist. Allar helstu stórstjörnur Íslands í frjálsum mættu á svæðið og má þar nefna Ásdísi Hjálmsdóttur spjótkastara, Hilmar Örn Jónsson og Vigdísi Jónsdóttur sleggjukastara, Óðinn Björn Þorsteinsson kúluvarpara, Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur grindahlaupara og Ara Braga Kárason og Kolbein Höð Gunnarsson spretthlaupara en mikið einvígi var þeirra á milli í 100 m hlaupinu. HSK/Selfoss mætti með tuttugu og þriggja manna vaska sveit keppenda sem stóð sig með sóma. Niðurstaðan var þrjú gull, eitt silfur og tvö brons, ásamt HSK-metum og fjöldan allan af bætingum. HSK/Selfoss varð í fimmta sæti í stigakeppni félag en MÍ í fjölþrautum sem fram fer seinna í sumar á eftir að reiknast inn.

Þrír titlar

Kristinn Þór Kristinsson Selfossi ber höfuð og herðar yfir millivegalengdarhlaupara landsins nú sem síðustu ár. Hann sigraði bæði 800 og 1.500 metra hlaupin af miklu öryggi á tímunum 1:54,68 mín í 800 m og 4:00,40 mín í 1.500 m. hlaupinu.

Þá gerði Guðrún Heiða Bjarnadóttir Selfossi sér lítið fyrir og sigraði langstökk með 5,78 m sem er persónuleg bæting um 19 cm og HSK-met í flokki stúlkna 20-22 ára en gamla metið átti Birgitta Guðjónsdóttir sem var 5,74 m og orðið 32 ára gamalt.

Í 3.000 m hindrunarhlaupi tók Ástþór Jón Tryggvason Selfossi silfurverðlaun á 10:37,26 mín. Í þrístökki nældi Harpa Svansdóttir Selfossi sér í bronsverðlaun er hún stökk 10,98 m í svolitlum mótvindi. Lára Björk Pétursdóttir Laugdælum kom þriðja í mark í 3.000 m hlaupi á tímanum 11:58,28 mín.

Boðhlaupssveit karla í 4x100 m boðhlaupi setti HSK-met í 18-19 ára flokki er þeir komu í mark á tímanum 46,11 sek en gamla metið var 46,2 sek. Sveitina skipuðu þeir Ýmir Atlason Selfossi, Dagur Fannar Einarsson Selfossi, Ástþór Jón Tryggvason Selfossi og Stefán Narfi Bjarnason Þjótanda. Þá bætti Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi sitt eigið HSK-met í sleggjukastsmet í 20-22 ára flokki stúlkna þegar hún kastaði 42,62 metra.

 

Persónulegar bætingar

Það var þó nokkuð um bætingar hjá keppendum HSK/Selfoss þó ekki næðu þau öll á pall. Stefán Narfi Bjarnason Þjótánda varð sjötti þegar hann bætti sig um tvo metra í spjótkasti og rauf 50 m múrinn í fyrsta skipti með kasti upp á 51,02 m. Sama gerði Katharína Sybilla Jóhannsdóttir Selfossi í spjóti, kastaði 31,47 m og varð tíunda. Í kringlukasti bætti Róbert Khorchai sig um rúmlega metra með 35,43 m kasti og í 400 m hlaupi hljóp Dagur Fannar Einarsson Selfossi vel og kom í mark á góðri bætingu 56,36 sek. Að lokum bætti Ýmir Atlason sig í 100 m hlaupi er hann hljóp á 12,43 sek.

Finna má frekari umfjöllun um árangur Sunnlendinga á laugardeginum og sunnudeginum á vef Sunnlenska.is. Öll úrslit mótsins má finna á vefsíðu FRÍ.

óg

--

Á mynd með frétt er Kristinn Þór Kristinsson Selfoss með örugga forystu í 1.500 m hlaupinu en hann varð Íslandsmeistari bæði i 800 og 1.500 metrunum.
Á mynd fyrir neðan er Guðrún Heiða Bjarnadóttir sem varð Íslandsmeistari í langstökki.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson