Team Nordic Hópmynd
Um helgina dvöldu á Selfossi þjálfarar og iðkendur í Team Nordic hópnum í taekwondo sem samanstendur af öllum bestu iðkendum og þjálfurum á Norðurlöndum. Team Nordic æfingarbúðirnar eru haldnar víðsvegar á Norðurlöndunum tvisvar til þrisvar á ári og nú var röðin komin að Íslandi.
Taekwondodeild Selfoss er mjög stolt af því að hafa fengið að hýsa þenna viðburð.
Liðin fóru að tínast til landsins fimmtudaginn 9. október og allt fram á síðustu stundu, rétt fyrir fyrstu æfinguna.
Það er mikill heiður að hafa fengið fólk eins og Fredrik Emil Olsen og Elin Johannsson til okkar ásamt þjálfara þeirra Niklas Anderson, sem einnig fengu að æfa í salnum okkar í Sunnulækjarskóla á mánudagsmorguninn enda hvergi slegið slöku við.
Elin Johannson er númer tvö í heiminum á styrkleikalistanum í sínum flokki og mun keppa á Ólympíuleikunum í Brasilíu 2016, HM og EM.
Fredrik Emil Olsen er langefstur á styrkleikalistanum í sínum aldurs- og þyngdarflokki, Hann er einnig kominn inn í Taekwondo Hall Of Fame yngstur allra en hann var á áttunda aldursári þegar hann var tekinn þar inn.
Allir þeir sem æfa að staðaldri undir merkjum Team Nordic þurfa að ávinna sér pláss í hópnum og sýna framafarir á öllum æfingabúðum og mæta á allar æfingar sem í boði eru. Taekwondodeild Selfoss á þrjá aðila sem eiga sæti í Team Nordic, það eru þau Daníel Jens Pétursson, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Dagný María Pétursdóttir. Ingibjörg Erla fékk sérstaka viðurkenningu fyrir miklar framfarir. Einnig voru valdir til þátttöku að þessu sinni Ísak Máni Stefánsson, Sigurjón Bergur Eiríksson, Þorvaldur Óskarsson og Marek Krawczyński sem stóðu sig allir mjög vel.
Allar tímsetningar stóðust varðandi æfingar, mat og allt annað sem deildin tók sér fyrir hendur. Eins og gefur að skilja liggur mikil vinna í undrbúningi og skipulagningu á æfingabúðum sem þessum.
Eins og alltaf þegar á reynir sést hversu vel í sveit sett við erum á Selfossi bæði hvað varðar alla umgjörð og aðstöðu. Íþróttahúsið Iða varð fyrir valinu enda eitt besta og flottasta íþróttahús á Íslandi. Einnig stafar þar frábært starfsfólk sem leggur sig allt fram um að gera viðburði sem þessa mögulega og sem allra glæsilegasta.
Vandamál er orð sem þau þekkja ekki, heldur eingöngu verkefni sem leyst eru með bros á vör.
Kostnaður við að halda slíkar æfingabúðir er mikill eins og gefur að skilja bæði hvað varðar mat og flutning á fólki milli staða. Þá koma styrktaraðilar okkar til skjalanna. SS, MS, Guðnabakarí, Hótel Selfoss, Stjörnugrís, Höfðabón og síðast en ekki síst Kajakferðir Stokkseyri sem sáu um að skemmta okkar fólki. Einnig kom Sveitarfélagið Árborg rausnarlega til móts við okkur með fríum sundferðum fyrir allan hópinn ásamt gistingu. Þá viljum við þakka Ungmennafélagi Selfoss fyrir afnot af Tíbrá alla helgina, sem er ómetanlegt.
Fyrir hönd Taekwondodeildar Umf. Selfoss vil ég þakka öllum sem lögðu hönd á plóg til að gera þetta að besta „Team Nordic camp“ að sögn þjálfaranna.
pj
---
Efst er hópmynd af þáttakendum í Team Nordic á Selfoss.
Fyrir neðan eru nokkrar myndir úr æfingabúðunum.
Myndirnar tók Tryggvi Rúnarsson.
Neðst er mynd af Soo Shim liðinu á æfingu í Sunnulækjarskóla. Frá vinstri Niklas Anderson, Fredrik Emil Olsen, Elin Johannsson, Pauline Lövgren og Ivar Larsson.
Mynd. Umf. Selfoss/Pétur Jensson