Elsa Karen fimleikakona ársins, Magdalena Ósk framför og ástundun, Daníel Már fimleikamaður ársins, Victoria Ann efnilegasti unglingurinn og Andrea félagi ársins.
Laugardaginn 1. júní fór fram árleg Minningarhátíð fimleikadeildar Selfoss.
Minningarhátíðin er til heiðurs Magnúsar Arnars Garðarssonar sem var félagi í deildinni og einn af þjálfurum hennar. Hann lést í mótorhjólaslysi þann 6. apríl 1990, aðeins tvítugur að aldri. Fimleikadeildinni er mikið í mun að halda minningu hans á lofti og heiðra hann á Minningarhátíðinni, enda hlökkum við alltaf mikið til þessa dags, sem er jafnframt uppskeruhátíðin okkar.
Á Minningarhátíðinni koma fram allir iðkendur deildarinnar og sýna afrakstur vetrarins. Þá eru veittar viðurkenningar fyrir framför og ástundun vetrarins, efnilegasta unglinginn, félaga ársins, lið ársins, fimleikamann og fimleikakonu ársins.
Í ár voru viðurkenningarnar veittar til eftirfarandi iðkenda:
Félagi ársins: Andrea Aradóttir
Framför og ástundun: Magdalena Ósk Einarsdóttir
Efnilegasti unglingurinn: Victoria Ann Vokes
Fimleikamaður ársins: Daníel Már Stefánsson
Fimleikakona ársins: Elsa Karen Sigmundsdóttir
Lið ársins var valið 2. flokkur Mix en þau eru nú ríkjandi Íslands - og Bikarmeistarar en hafa í vetur náð miklum framförum, eru sífellt að leggja sig fram, eru áhugasöm og það er alltaf gleði á æfingum hjá þeim.
Þá voru kallaðar fram stúlkurnar í 1. flokki og þær heiðraðar fyrir árangur vetrarins, en þær urðu í vetur Bikar og Íslandsmeistarar auk þess að vinna sér inn keppnisrétt á Norðurlandamóti unglinga sem fór fram í Svíþjóð í apríl. Þær kölluðu fram Ingu Heiðu Andreasen Heimisdóttur og veittu henni viðurkenningur en hún hefur tekið mikið af myndum af liðinu í vetur og fór meðal annars með þeim til Svíþjóðar og myndaði þær þar.
Eftir hátíðina komu fram tveir af fyrrum iðkendum deildarinnar, Inga Jóna og Klara og sungu lagið "We are the champions" og gerðu það listavel. Þá lánuðu Byko okkur grill og því bauð fimleikadeildin upp á grillaðar pylsur fyrir öll þau sem voru mætt á hátíðina, áhorfendur sem og iðkendur.
Heilt yfir var þetta skemmtileg stund, þar sem leikgleðin var við völd og dagurinn snerist um samveru fjölskyldunnar og uppskeru vetrarins.
Glansmyndir buðu öllum viðstöddum í myndatöku í skemmtilegum myndakassa á þeirra vegum, Tilefni.is létu útbúa skemmtilegar UMF Selfoss blöðrur og Nettó gaf öllum iðkendum ávexti eftir sýninguna.
Við þökkum öllum fyrir komuna, þökkum yngri flokkunum okkar fyrir veturinn og hlökkum til að ári :-)