60434473_1472631746222807_3652913785972195328_o
Það var nóg af mörkum fyrir alla í leik Selfoss og KA í þessum leik í Olísdeild karla í kvöld, en þar lögðu Selfyssingar gestina 36-34.
Selfyssingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörkin. Stefán og Jónatan voru þá búnir að sjá nóg og tóku leikhlé eftir rétt rúmar 2 mínútur. Það gekk hjá þeim að skerpa sína menn og skiptust liðin á að skora en Akureyringar náðu að jafna leikinn þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af hálfleiknum, áfram skiptust liðin á að skora og lítið um varnir. Allt jafnt í hálfleik, 19-19.
Það er ljóst að þjálfararnir í báðum klefum töluðu um að þétta vörnina, en liðin héldust áfram í hendur og jafnt á öllum tölum fyrstu 10 mínúur síðari hálfleiksins. Þá bættu Selfyssingar í og sigldu framúr og var forystan komin í 5 mörk, 29-24, þegar 46 mínútur voru á klukkunni. Þá tóku KA sitt síðasta leikhlé og ákváðu að taka Hauk Þrastarson úr umferð. Sóknarleikur Selfyssinga riðlaðist heldur við það, en ró komst yfir hann fljótlega aftur. KA-menn reyndu hvað þeir gátu og fóru maður á mann síðustu mínúturnar og hleyptu leiknum upp. Þeir náðu að koma spennu i lokamínútuna, en Selfyssingar stóðust áhlaupið.
Mörk Selfoss: Hergeir Grímsson 11/3, Árni Steinn Steinþórsson 9, Haukur Þrastarson 9, Atli Ævar Ingólfsson 3, Nökkvi Dan Elliðason 3, Guðjón Baldur Ómarsson 1.
Varin skot: Sölvi Ólafsson 8 (31%), Einar Baldvin Baldvinsson 4 (23%).
Nánar er fjallað um leikinn á Vísir.is, Mbl.is og Sunnlenska.is
Strákarnir eru þar með komnir með 9 stig og náðu með þessum sigri að lyfta sér í 4. sæti deildarinnar. Nú tekur við landsleikjahlé í Olísdeildinni og er næsti leikur strákanna í Mosfellsbæ gegn Aftureldingu 31. október. Stelpurnar okkar eru hins vegar á fullri ferð í Grill 66 deildinni og taka á móti Fjölni á sunnudaginn kl. 19:30. Við sjáumst í Hleðsluhöllinni þá.
Hergeir Grímsson átti stórleik bæði í vörn og sókn.
Umf. Selfoss / JÁE